Keflavík fengu KR í heimsókn í kvöld í Dominos-deild karla í körfuknattleik og með sigri gátu Keflvíkingar tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
KR hinsvegar í harðri baráttu um að ná heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninar. Svo fór að lokum eftir bráðskemmtilega viðureign að Keflavík sigraði leikinn 95:87 og eru deildarmeistarar þetta árið.
Leikurinn í heild sinni var ótrúlega fjörugur og mikið var skorað. Það var ekki fyrr enn í fjórða leikhluta að hægðist á sóknarþunga og hófst þá refskák liðana í varnarleik. Fram að því höfðu verið sveiflur þar sem að liðin skiptust á að skora einhver 5 til 8 stig í röð án þess að andstæðingurinn náði að skora.
Enda mínúturnar voru naglbítur sem að svo Keflvíkingar lokuðu þegar Deane Williams setti í fluggír og ísaði leikinn endanlega með þrist þegar um 20 sekúndur voru eftir. Calvin Burks stigahæstur Keflvíkinga með 25 stig en hjá KR var það Brandon Nazione með 26 stig.
Undirritaður hefur í raun sagt það frá upphafi móts að þetta Keflavíkurlið er liðið sem þarf að sigra til að vinna titilinn stóra í ár. En hef ég hinsvegar ekki séð það lið sem kemur til að velgja þeim undir uggum í úrslitakeppninni og held ég mig við mína spá. Í kvöld sýndi liðið en frekari styrkleika sína þegar illa gekk að koma aðal mönnum í gang koma menn af bekknum eins og Arnór Sveinsson og Þröstur Jóhannsson og blása líf í liðið þegar á þarf. Þarna er Hjalti þjálfari liðsins að kafa ansi djúpt á bekkinn eftir framlagi og menn skila traustinu ríkulega. Þegar svo mest á þurfti hrukku lykilmenn í gang og klára leikinn. Er þá talað um að þegar Deane Williams steig upp eftir afar slakan leik þar á undan og í raun kláraði leikinn fyrir Keflavík. Það hefur ekki verið mikið um það en í upphafi móts voru Keflvíkingar að sýna ákveðin veikleika þegar þeir virtust detta í ákveðið kæruleysi í sínum leik. Slen var yfir liðinu í fyrri hálfleik þar sem gestirnir fengu í raun að skjóta boltanum nokkuð óáreittir.
KR liðið hefur svolítið náð að fljúga undir radar allt mótið og eru nú á loka kaflanum að sýna það að þeir virðast vera að styrkjast með hverjum leik, þrátt fyrir tap í síðustu tveimur leikjum. Hópurinn ef litið er yfir hann er gríðarlega sterkur og voru þeir að veita deildarmeisturunum ansi harða keppni á þeirra eigin heimavelli. Þrátt fyrir þetta voru KR-ingar gríðarlega svekktir að hafa tapað og rík ástæða til. Maður skynjar að þeir verði öflugir í úrslitakeppninni sem framundan er. Þrátt fyrir að þrír leikir séu vissulega eftir af mótinu og margt getur breyst þá stefnir í ansi fróðlegan slag í fyrstu umferðinni þar sem að KR og Valur myndu etja kappi.
Gangur leiksins:: 8:5, 16:12, 21:22, 23:30, 29:43, 33:44, 37:46, 47:51, 47:56, 56:59, 61:66, 69:71, 73:73, 77:77, 87:83, 95:87.
Keflavík: Calvin Burks Jr. 25/7 fráköst, Dominykas Milka 24/9 fráköst, Deane Williams 21/12 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Arnór Sveinsson 8, Hörður Axel Vilhjálmsson 7/6 fráköst/17 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 4, Reggie Dupree 3, Ágúst Orrason 3.
Fráköst: 28 í vörn, 11 í sókn.
KR: Brandon Joseph Nazione 26, Jakob Örn Sigurðarson 21/7 fráköst, Tyler Sabin 16, Matthías Orri Sigurðarson 8/7 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 7, Brynjar Þór Björnsson 6, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 3/5 fráköst.
Fráköst: 23 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.
Áhorfendur: 200