Hamri og Vestra úrskurðaður sigur

Hrunamenn sjá sér ekki fært að mæta til leiks vegna …
Hrunamenn sjá sér ekki fært að mæta til leiks vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Facebook

Hamri og Vestra hefur verið úrskurðaður sigur gegn Hrunamönnum í 1. deild karla í körfuknattleik. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem KKÍ sendi frá sér í dag.

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur íþróttahúsi Hrunamanna verið lokað og þá eru bæði leikmenn og aðrir tengdir félaginu í sóttkví vegna kórónuveirusmits sem kom upp á Flúðum.

Vegna þessa sjá Hrunamenn sér ekki fært að leika þá tvo leiki sem þeir eiga eftir í deildarkeppninni, gegn Hamar og Vestra.

„Þar sem dregur að lokum deildarkeppni 1. deildar karla, en lokaumferð deildarinnar fer fram mánudaginn 3. maí, þá sér mótanefnd KKÍ sér ekki fært að setja leiki Hrunamanna aftur fyrir lokaumferð deildarkeppni 1. deildar, þar sem stutt er í úrslitakeppni deildarinnar,“ segir í tilkynningu KKÍ.

„Mótanefnd hefur tekið þá erfiðu ákvörðun, eftir samtal við Hrunamenn og að vel ígrunduðu máli, að þessir leikir Hrunamanna munu ekki fara fram. Hamar og Vestri hljóta því sigur í þessum lokaleikjum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Breiðablik getur tryggt sér sæti í efstu deild að ári með sigri gegn Sindra í kvöld en hin átta lið 1. deildarinnar fara í úrslitakeppni þar sem leikið verður um laust sæti í úrvalsdeildinni að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert