Ætlar að kæra vegna ásakana um veðmálasvindl

Srdan Stojanovic í leik með Þór.
Srdan Stojanovic í leik með Þór. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Srdan Stojanovic, körfuknattleiksmaður úr Þór á Akureyri, ætlar að leggja fram kærur fyrir meintan rógburð og lygar en sá orðrómur gekk fyrir leik liðsins gegn Njarðvík í úrvalsdeild karla í gærkvöld að hann væri flæktur í veðmálasvindl sem tengdist leiknum.

Frá þessu er greint á karfan.is og vitnað í hlaðvarpið The Mike Show þar sem talað var um að gengið hefði verið á leikmanninn á fundi fyrir leik og hann inntur um svör við ásökunum um að hann væri aðili að veðmálasvindli.

Stojanovic skoraði 17 stig fyrir Þór í leiknum en Njarðvík vann örugglega, 97:75. Hann neitar því í samtali við karfan.is að hafa heyrt af þessu fyrr en eftir leikinn. Hann sé á leið að hitta lögfræðing og ætli að kæra viðkomandi aðila fyrir rógburð og lygar í fjölmiðlum, að nota nafn sitt í slæmum ásetningi og skemma mannorð sitt. „Ég hef ekki gert neitt ólöglegt og þetta er alvarleg opinber ásökun,“ segir Stojanovic við karfan.is.

Stojanovic 29 ára gamall, serbneskur en með ungverskt ríkisfang, og leikur sitt þriðja tímabil á Íslandi en tvö undanfarin tímabil lék hann með Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert