James Harden bakvörður Brooklyn Nets hefur ekki leikið með liðinu síðastliðinn mánuð en segist nú reikna með að koma við sögu áður en úrslitakeppni NBA-deildarinnar hefst.
Harden ræddi við fjölmiðla um meiðslin í fyrsta skipti í gær en Harden meiddist í læri og lék síðast 5. apríl.
Harden var fjallbrattur í gær og sagðist vera á góðum batavegi. Hann segist sjá fyrir sér að koma við sögu í einum til tveimur leikjum í lok deildakeppninnar en úrslitakeppnin hefst 22. maí.
Brooklyn hefur tapað fjórum leikjum í röð og liðið er því ekki á sérlega góðu róli sem stendur. Mjög sjaldan hefur liðið getað teflt þríeykinu fræga fram saman í vetur: Harden, Kyrie Irving og Kevin Durant.