Króatíski framherjinn Bojan Bogdanovic átti sannkallaðan stórleik fyrir Utah Jazz þegar liðið bar sigurorð af Denver Nuggets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Þá heldur Kamerúninn Joel Embiid áfram að spila vel fyrir Philadelphia 76ers.
Bogdanovic skoraði hvorki meira né minna en 48 stig, auk þess að taka átta fráköst í 127:120 sigri.
Í liði Denver léku Michael Porter Jr. og Serbinn Nikola Jokic afar vel. Porter Jr. endaði með 31 stig og tók sex fráköst, en Jokic náði tvöfaldri tvennu; gerði 24 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók níu fráköst.
Philadelphia vann svo nauman 109:107 sigur gegn New Orleans Pelicans þar sem Embiid reyndist liðinu ákaflega mikilvægur, og það ekki í fyrsta sinn.
Hann var með tvöfalda tvennu; skoraði 37 stig og tók 13 fráköst.
Alls fóru 10 leikir fram í NBA-deildinni í nótt.
Öll úrslit næturinnar:
Utah – Denver 127:120
Philadelphia – New Orleans 109:107
Chicago – Boston 121:99
Charlotte – Orlando 122:112
Miami – Minnesota 121:112
Milwaukee – Houston 141 – 133
Dallas – Cleveland 110:90
Sacramento – San Antonio 104:113
Portland – LA Lakers 106:101
Phoenix – New York 128:105