Mikill liðstyrkur í Keflavík

Thelma Dís Ágústsdóttir í leik með Keflavík í mars 2017.
Thelma Dís Ágústsdóttir í leik með Keflavík í mars 2017. mbl.is/Golli

Thelma Dís Ágústsdóttir er á heimleið og mun leika með Keflavík í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfuknattleik. Þetta kom fram í Domino's Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport í dag. 

Thelma Dís er við nám í Ball State-háskólanum í Indiana þar sem hún hefur dvalið síðastliðin þrjú ár en hún útskrifaðist á dögunum.

Bakvörðurinn, sem er 21 árs gömul, var lykilkona í liði Keflavíkur þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 2017.

Hún var útnefnd besti leikmaður tímabilsins en hún skoraði 9 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar að meðtali í deildarkeppninni það tímabilið.

Keflavík mætir Haukum í undanúrslitum úrslitakeppninnar en Keflvíkingar höfnuðu í þriðja sæti Dominos-deildarinnar á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert