Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, segir ekki vera komið á hreint hvort hann verði áfram hjá spænska liðinu Zaragoza á næsta keppnistímabili.
Tryggvi er í viðtali á netmiðlinum Akureyri.net og er þar spurður um framhaldið. Þar segist hann ætla að ljúka tímabilinu og skoða svo stöðuna. En lætur þess getið að draumurinn sé að spila með liði sem sé í EuroLeague, sterkustu félagsliðakeppninni í Evrópu.
Spurður um hlutverk sitt hjá Zaragoza segir hann að menn þurfi að taka því sem að höndum ber í atvinnumennskunni. Stundum sé gott að tefla honum mikið fram og stundum minna eftir því hver andstæðingurinn sé. Tímabilið hafi verið undarlegt hjá Zaragoza því liðið hafi haft þrjá þjálfara á tímabilinu.