Bakvörðurinn öflugi úr Njarðvík, Elvar Már Friðriksson, hefur verið valinn besti leikmaður tímabilsins í litháísku úrvalsdeildinni í körfuknattleik, þar sem hann leikur með Siauliai.
Elvar Már fór á kostum á tímabilinu þegar Silauiai tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í Litháen með því að lenda í 7. sæti deildarinnar.
Þar mætir liðið Rytas, sem endaði í 2. sæti, en þó er búið að fresta fyrstu tveimur leikjunum í átta liða úrslitunum. Fyrsti leikur Siauliai í úrslitakeppninni gegn Rytas átti að fara fram í dag og annari leikurinn á sunnudaginn en óljóst er hvenær þeir geta farið fram.
Njarðvíkingurinn var með 15,6 stig og gaf 7,7 stoðsendingar að meðaltali í deildinni, sem skilaði honum 19,9 framlagsstigum að meðaltali.
The 2020-21 #betsafeLKL regular season MVP comes in the form of @ElvarFridriks 🤩🔥 pic.twitter.com/cE96ECOuMz
— Betsafe LKL (@betsafeLKL) May 13, 2021
Skemmst er að minnast ótrúlegs leiks hans í síðasta mánuði, þar sem hann var með fullkomna skotnýtingu í sigri gegn Pieno Zvaigzdes.
Hitti hann úr hverju einasta skoti sínu þegar hann skoraði 33 stig, auk þess sem hann gaf 12 stoðsendingar í leiknum, sem skiluðu honum ótrúlegu 51 framlagsstigi.