Keflvíkingar lönduðu sigri í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni Dominosdeildar karla í kvöld þegar þeir lögðu Tindastól 79:71. Sigurinn var langt frá því að vera öruggur og þurftu Keflvíkingar að taka á honum stóra sínum til að landa þessum.
Níu stig skildu liðin í hálfleik og það var ekki fyrr en undir lok fjórða leikhluta að Keflvíkingar sigu fram úr og sigruðu að lokum með 8 stigum.
Verandi liðin úr 1. og svo 8. sæti og svo þeirri staðreynd að Keflvíkingar sigruðu deildina með miklu öryggi, átti maður kannski von á að Keflvíkingar myndu eiga tiltölulega náðugan dag. En úrslitakeppnin er ný byrjun fyrir alla í raun og eina sem skilur liðin að þegar sú keppni hefst er heimavöllur liðanna.
Tindastólsmenn voru augljóslega með fínar áherslur fyrir kvöldið og ákveðið sjálfstraust sem fylgdi þeim nánast allt til loka leiks. En það var margt óvenjulegt við þennan leik og hægt væri að byrja á þeirri staðreynd að Keflvíkingar skoruðu sína þriðju þriggja stiga körfu þegar eitthvað var liðið á fjórða leikhluta.
En það sem kom mest á óvart var að í þriðja leikhluta sigruðu gestirnir úr Skagafirðinum. Án þess að skoða þessa tölfræði til hlítar þá myndi undirritaður giska að Keflvíkingar hafi unnið allra þriðju fjórðunga á heimavelli í vetur.
Tindastóll gerðu vel allt kvöldið og náðu að skrúfa fyrir öll áhlaup heimamanna til að byggja grunn að sigrinum, já öllu nema einu.
Heilt yfir var hvorugt liðið að skjóta boltanum vel þetta kvöldið. En það var ákveðin vendipunktur í leiknum í fjórða leikhluta þegar Hörður Axel Vilhjálmsson setti niður tvo þrista í röð og kom heimamönnum í 12 stiga forystu.
Þetta bil náðu gestirnir ekki að brúa. Hins vegar var það svo einnig Hörður Axel sem límdi sig eins og franskan rennilás á Nick Tomsick allt kvöldið og þurfti Tomsick að sætta sig við að skora aðeins 5 stig, og öll af vítalínunni. Af þessu að dæma þá tekur Hörður Axel titilinn maður leiksins þetta kvöldið þrátt fyrir að liðsfélagi hans Domynikas Milka hafi sallað niður 33 stigum á gesti sína þetta kvöldið.
Þessi leikur setur smá spennu í þetta einvígi sem margir voru búnir að dæma um niðurstöðu fyrir löngu. Tindastólsmenn sýndu að þeir geta með fínu móti átt við Keflvíkinga en hinsvegar mega þeir ekki gleyma sér eitt augnablik því deildarmeistararnir eru fljótir að refsa.
Bæði lið eiga svo sem nóg inni. Deane Williams sem í vetur hefur verið Keflvíkingum þyngdar sinnar virði í gulli var langt frá sínu besta þetta kvöldið og svo auðvitað fyrrnefndur Nick Tomsick þarf að finna leiðir til að losa sig frá Herði Axel, sem gæti hinsvegar reynst honum ansi erfitt ef dæma má af kvöldinu í kvöld.
Keflvíkingar leiða einvígið 1:0 og næsti leikur er á Sauðárkróki á þriðjudaginn næstkomandi.
Blue-höllin, Dominos deild karla, 15. maí 2021.
Gangur leiksins:: 5:3, 6:10, 12:14, 22:22, 28:26, 33:29, 35:29, 38:31, 44:35, 48:43, 54:49, 57:54, 63:61, 72:63, 77:65, 79:71.
Keflavík: Dominykas Milka 33/8 fráköst, Calvin Burks Jr. 20/9 fráköst, Deane Williams 15/13 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 8/6 fráköst/5 stoðsendingar, Reggie Dupree 3.
Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.
Tindastóll: Flenard Whitfield 23/14 fráköst, Jaka Brodnik 14/9 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 13/5 fráköst, Axel Kárason 8, Nikolas Tomsick 5/8 fráköst, Hannes Ingi Másson 3, Viðar Ágústsson 3, Helgi Rafn Viggósson 2.
Fráköst: 33 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarki Þór Davíðsson.
Áhorfendur: 250