Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar í körfuknattleik, verður ekki með liðinu þegar það heimsækir Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í HS Orku-höllina í Grindavík í kvöld.
Hlynur var úrskurðaður í eins leiks bann af Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ vegna háttsemi sinnar í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í Mathús Garðabæjar-höllinni á laugardaginn síðasta.
Leiknum lauk með 90:72-sigri Stjörnunnar en Hlynur sló Dag Kár Jónsson, leikmann Grindavíkur, í leiknum með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið.
„Það er mat nefndarinnar að myndbandsupptaka sem fylgdi kæru dómaranefndar sýni með óyggjandi hætti að kærði hafi framið brot sem hefði átt að leiða til brottvísunar,“ segir meðal annars í úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar KKÍ.
„Hinn kærði leikmaður, Hlynur E. Bæringsson, skal sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar,“ segir enn fremur í úrskurðinum.