Sannfærandi Grindvíkingar jöfnuðu einvígið

Stjörnumaðurinn Mirza Sarajlija með boltann í fyrsta leiknum gegn Grindavík.
Stjörnumaðurinn Mirza Sarajlija með boltann í fyrsta leiknum gegn Grindavík. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Grindavík er búin að jafna einvígi sitt við Stjörnuna í 1:1 eftir öruggan 101:89 sigur í Grindavík í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld.

Ólafur Ólafsson setti strax tóninn fyrir Grindavík þegar hann setti niður þriggja stiga körfu í fyrstu sókn heimamanna. Eftir nokkuð jafnræði til að byrja með tóku Grindvíkingar öll völd og náðu mest 11 stiga forystu, 25:14, í afar fjörugum fyrsta leikhluta.

Þrátt fyrir að eiga í talsverðum vandræðum bæði varnar- og sóknarlega, þar sem fimm tapaðir boltar og tvær tæknivillur gerðu til að mynda vart við sig, klóruðu Stjörnumenn ávallt í bakkann. Þeir skoruðu t.d. næstu sjö stig og munurinn því skyndilega orðinn fjögur stig, 25:21.

Munurinn að loknum fyrsta leikhluta var fimm stig, 29:24.

Í öðrum leikhluta voru Grindvíkingar áfram við völd og náðu mest 13 stiga forystu, 45:32, þegar tæpar tvær og hálf mínúta voru til hálfleiks. Aftur brugðust Stjörnumenn vel við og skoruðu næstu átta stig og staðan orðin 45:40.

Síðustu þrjú stig leikhlutans skoruðu hins vegar Grindvíkingar og fóru með átta stiga forystu, 48:40, til leikhlés.

Á meðan Grindvíkingar spiluðu góðan varnarleik og dreifðu stigunum vel á milli sín í sóknarleiknum í fyrri hálfleik var það fyrst og fremst einn maður sem hélt Stjörnumönnum inni í leiknum, Ægir Þór Steinarsson, sem skoraði helming stiga gestanna í hálfleiknum, 20 talsins, og tók sex varnarfráköst að auki.

Í síðari hálfleik héldu Grindvíkingar forystu sinni og náðu til að mynda aftur 11 stiga forystu, 58:47, snemma í þriðja leikhluta. Undir lok leikhlutans komust Stjörnumenn nálægt því að jafna metin þegar munurinn var orðinn aðeins þrjú stig, 63:60.

Grindavík tók hins vegar leikhlé í kjölfarið og skoraði næstu fimm stig. Staðan að loknum þriðja leikhluta því 68:60 þar sem Joonas Jarvelainen skoraði 10 síðustu stig

Í fjórða leikhluta mættu heimamenn í Grindavík trítilóðir og voru komnir í 21 stigs forystu eftir aðeins rúmar þrjár mínútur af leikhlutanum, 85:64, og tóku Stjörnumenn þá sitt annað leikhlé í leikhlutanum.

Síðara leikhléið virkaði vel því Stjarnan skoraði næstu 10 stig og staðan orðin 85:74. Nær komust gestirnir þó ekki og Grindvíkingar tóku öll völd að nýju.

Lauk leiknum með góðum 12 stiga sigri heimamanna, 101:89, þar sem Grindvíkingar létu forystuna aldrei af hendi, enda voru þeir beinlínis yfir allan leikinn.

Grindavík er þar með búin að jafna einvígið, 1:1, og mætast liðin í þriðja leik í átta liða úrslitunum í Garðabæ á laugardaginn kemur.

Ægir Þór fór sem áður segir á kostum í liði gestanna en það dugði ekki til og hefði Stjarnan þurft á meira framlagi að halda frá fleiri leikmönnum. Skoraði hann 33 stig, tók átta fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og stal þremur boltum.

Ekkert vantaði hins vegar upp á framlag frá leikmönnum Grindavíkur. Stigahæstur þeirra var Jarvelainen sem kom sérstaklega sterkur inn í síðari hálfleikinn og gerði 23 stig í heildina.

Dagur Kár Jónsson var sömuleiðis öflugur með tvöfalda tvennu; 21 stig og 13 stoðsendingar. Ólafur gerði þá 20 stig og Amenhotep Kazembe Abif var með 18 stig og 8 fráköst.

Grindavík - Stjarnan 101:89

HS Orku-höllin, Dominos-deild karla, 18. maí 2021.

Gangur leiksins:: 7:6, 14:9, 25:14, 29:24, 34:26, 36:30, 42:32, 48:40, 53:47, 58:52, 63:60, 70:60, 80:62, 86:74, 93:79, 101:89.

Grindavík: Joonas Jarvelainen 23/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 21/4 fráköst/13 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 20, Amenhotep Kazembe Abif 18/8 fráköst, Kristinn Pálsson 8/9 fráköst/7 stoðsendingar/3 varin skot, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 7/5 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 2, Þorleifur Ólafsson 2.

Fráköst: 32 í vörn, 6 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 33/8 fráköst, Gunnar Ólafsson 14, Alexander Lindqvist 12/9 fráköst, Mirza Sarajlija 8, Dúi Þór Jónsson 7, Arnþór Freyr Guðmundsson 5/4 fráköst, Orri Gunnarsson 4, Austin James Brodeur 4/10 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 2/4 fráköst.

Fráköst: 28 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 150

Grindavík 101:89 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert