Dramatísk rimma KR og Vals er jöfn 1:1

Valsmaðurinn Jordan Roland sækir að körfu KR í leiknum í …
Valsmaðurinn Jordan Roland sækir að körfu KR í leiknum í kvöld en þar er Jakob Örn Sigurðarson til varnar. mbl.is/Eggert

Staðan er 1:1 hjá KR og Val í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir eins stigs sigur Vals 85:84 í öðrum leik liðanna í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.

KR vann fyrsta leik liðanna á Hlíðarenda 99:98 eftir framlengingu og mikla dramatík en þrjá  sigurleiki þarf til að komast í undanúrslit. Liðin fengu jafn mörg stig í deildakeppninni í vetur en Valur hafnaði í 4. sæti og KR í 5. sæti. Valur á því oddaleik ef til þess kemur en það er orðið nokkuð líklegt. 

Rétt eins og í fyrsta leiknum þá var mikil spenna á lokasekúndunum en ekki þurfti þó að framlengja í þetta skiptið. Valur var með tíu stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann. Þá var gamla brýninu Helga Má Magnússyni teflt fram en hann hafði spilað fjórar mínútur fram að því. KR-ingar náðu áhlaupi og jöfnuðu hvort sem Helgi hafði áhrif á það eða ekki. Komust þó ekki yfir og Valur hafði naumt forskot á lokamínútunum. 

Þegar tíu sekúndur voru eftir átti Valur innkast og staðan var 85:84 fyrir Val. KR-ingar reyndu skiljanlega að brjóta en höfðu aðeins brotið þrisvar af sér í fjórða leikhlutanum. Þurftu því að brjóta tvisvar til að senda Valsmenn á vítalínuna. Það tók KR-inga átta sekúndur að brjóta en KR-ingar voru reyndar ósáttir við dómarana. Stundum vilja menn að dæmdar séu villur á sig og þetta var eitt þeirra skipta. KR-ingar voru snöggir að brjóta í seinna skiptið og Cardoso fór á vítalínuna. Hann brenndi af báðum vítunum. Frákastið hafnaði hjá Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni. Hann hafði engan tíma til að fara fram völlinn og skaut eins konar handboltaskoti úr eigin vítateig og yfir völlinn. Í takti við dramatíkina sem einkennir þessa rimmu þá var skotið að sjálfsögðu beint á hringinn og munaði satt að segja litlu að boltinn færi niður.

Fimm leiki mun þurfa til að útkljá rimmuna

Eins og í fyrsta leiknum þá hittu KR-ingar vel fyrir utan í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu 31 stig í fyrsta leikhluta sem er auðvitað frábært í leik eins og þessum þar sem spennustigið er hátt. Það skilaði þeim þó ekki miklu forskoti. Þeir voru reyndar yfir 26:18 en að loknum fyrsta leikhluta var staðan 31:28 fyrir KR. Að loknum fyrri hálfleik var Valur yfir 48:46.

Í fyrri hálfleik gekk KR-ingum mun betur í sókninni en Valsmenn tóku urmul af sóknarfráköstum. Þegar uppi var staðið var sláandi munur á liðunum í fráköstunum. Valur tók 55 en KR 35. 

Pavel Ermolinskij skoraði mikilvæga körfu fyrir Val og kom liðinu …
Pavel Ermolinskij skoraði mikilvæga körfu fyrir Val og kom liðinu í 85:80 þegar um hálf mínúta var eftir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar leið á þriðja leikhluta náði Valur tíu stiga forskoti eins og áður segir. En KR-ingar átu það upp og jöfnuðu þegar fimm mínútur voru eftir. Þá kom Jón Arnór strax með þriggja stiga körfu sem var mikilvægt fyrir Val. En lokamínúturnar urðu mjög spennandi þótt Valsmenn væru oft með þriggja til fimm stiga forskot. 

Fyrstu leikirnir hafa snúist töluvert um hvort leikmenn þoli spennuna og séu einbeittir undir þessum kringumstæðum. Bæði lið hafa í raun staðist það próf vel og fyrir vikið hafa leikirnir verið bráðskemmtilegir. Eins og staðan er núna á maður ekki von á öðru en að fimm leiki þurfi til að útkljá þessa rimmu. Akkúrat það sem íþróttaunnendur vonuðust eftir þegar þessi lið lentu saman í úrslitakeppninnni. 

Roland losnar ekki úr gæslunni

Tyler Sabin var drjúgur eins og oft áður hjá KR. Hann er með sjálfstraustið í botni og getur skorað ótrúlegar körfur. Þegar það gengur ekki upp þá lítur það skiljanlega ekki eins vel út. Eitt dæmi sem situr í mér er þegar KR fór í sókn í stöðunni 83:80 fyrir Val. Sóknin var nýbyrjuð og þá lét Sabin vaða af Kristins Friðrikssonar færi, þ.e. langt fyrir utan þriggja stiga línuna. Skotið rataði ekki rétta leið og Valur fékk boltann. Í stöðu sem þessari ímynda ég mér að leikreyndir leikmenn KR vilji sjá meiri yfirvegun. 

Brandon Nazione skilaði 15 stigum og 12 fráköstum. Hann skilaði góðu framlagi í sókninni. Matthías Orri var sprækur og Brynjar skoraði töluvert í fyrri hálfleik. Björn Kristjánsson átti einnig ágæta rispu í síðari hálfleik. Helgi og Jakob skoruðu samtals fimm stig og þar er mikill munur frá fyrsta leiknum þar sem Helgi setti niður þrjá af fjórum þristum og Jakob þrjá af fimm. 

Helgi Már Magnússon sendir lúmska sendingu í leiknum í kvöld.
Helgi Már Magnússon sendir lúmska sendingu í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framlengdur spennuleikur eins og um daginn tekur auðvitað mjög á og spurning hvernig tæplega fertugum mönnum gengur að jafna sig á milli leikja. Það mun einnig skipta máli í framhaldinu. Þessir leikir eru ekkert venjulegir. Tvö af best mönnuðu liðum sem spilað hafa á Íslandi og rafmagnað andrúmsloft á milli liðanna. Menn þurfa að berjast fyrir því bara að losa sig og fá boltann, hvað þá meira. Jón Arnór spilaði 20 mínútur fyrir Val í kvöld. Heldur minna en í fyrsta leiknum. Hann er oft að gæta Sabin í vörninni og í það fer mikil orka. Jón Arnór skoraði 11 stig í kvöld en hann hefur verið mjög grimmur í báðum leikjunum og það sést langar leiðir að hann ætlar ekki að tapa þessari rimmu. 

Miguel Cardoso skoraði 18 stig fyrir Val og var stigahæstur en stigaskorið dreifðist ágætlega hjá Val. Hjálmar Stefánsson og Kristófer Acox stóðu sig vel í frákastabaráttunni og Bilic skoraði mikilvægar körfur.

Valsmenn eru í vandræðum með að losa Jordan Roland úr gæslunni. Hann skoraði 7 stig í kvöld og í síðasta leik var hann lengi að komast á blað. KR-ingar taka áhættu og fara gjarnan tveir í hann. Það hefur skilað árangri og í kvöld fannst mér Roland satt að segja ekki höndla aðstæður vel. Seint í leiknum sló hann frá sér þegar KR-ingar voru komnir tveir í hann og hann missti boltann út af á lokamínútunni í svipuðum aðstæðum. Fróðlegt verður að fylgjast með honum í framhaldinu því þar er mjög hæfileikaríkur leikmaður á ferðinni eins og hann hefur oft sýnt í vetur. 

Gangur leiksins: 8:5, 17:15, 26:18, 31:28, 34:31, 37:36, 39:45, 46:48, 51:55, 58:60, 59:67, 62:72, 68:74, 74:77, 78:83, 84:85.

KR: Tyler Sabin 23/4 fráköst/8 stoðsendingar, Brandon Joseph Nazione 15/12 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 12/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 10, Björn Kristjánsson 8, Zarko Jukic 6/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 5, Helgi Már Magnússon 3, Jakob Örn Sigurðarson 2/5 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 8 í sókn.

Valur: Miguel Cardoso 18/4 fráköst/7 stoðsendingar, Sinisa Bilic 16/8 fráköst, Hjálmar Stefánsson 13/14 fráköst, Kristófer Acox 12/14 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 11, Pavel Ermolinskij 8/5 fráköst, Jordan Jamal Roland 7/4 fráköst.

Fráköst: 26 í vörn, 24 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Friðrik Árnason.

Áhorfendur: 300



KR 84:85 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert