„Mikil vinna framundan“

Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Finnur Freyr Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson, Kristófer Acox og Finnur Freyr Stefánsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn náðu sigrinum sem þeir þurftu svo á að halda gegn KR-ingum þegar liðin mættust öðru sinni í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld. 

Valur vann 85:84 og hafa þá báðir leikirnir unnist á útivelli því KR vann fyrsta leikinn á Hlíðarenda 99:98. 

Mbl.is spurði Finn Frey Stefánsson hvort ekki hafi verið léttir að landa þessum sigri en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram. 

„Auðvitað var frábært að vinna en ég hefði viljað spila betur,“ sagði Finnur en fyrstu leikirnir hafa verið afar spennandi og dramatískir. Spurður um hverju íþróttaunnendur megi búast við í næstu leikjum sagði Finnur einfaldlega vona það besta. 

„Ég vona náttúrlega innilega að þetta verði þægilegt fyrir okkur sem eftir er en það er ekki séns að þetta verði þannig. Við þurfum að einbeita okkur að næsta leik og í raun einbeita okkur bara að næstu sókn og næstu vörn. Við þurfum að sýna okkar besta til að landa sigri.“

Hans menn stóðu sig vel í baráttunni um fráköstin í kvöld og það hafði mikið að segja. „Þessi lið eru ólík og styrkleikarnir ólíkir. Mér fannst síðasti leikur spilast svolítið upp í hendurnar á þeim. Við vildum nýta styrkleika okkar vel nærri körfunni. Við gerðum það sérstaklega vel í fyrri hálfleik en náðum ekki alveg að fylgja því eftir í seinni hálfleik. Við sóttum margar villur með þessum hætti í fyrri hálfleik og þá gerðum við vel í því að sækja á körfuna. Mér fannst við ekki fá eins mikið í síðari hálfleik þegar við sóttum á körfuna. Leiðinlegt hvernig það jafnaðist út miðað við hversu mikið við fórum á hringinn. Á heildina litið er ég ánægður með sigurinn en við hefðum mátt klára dæmið betur eftir að hafa náð tíu stiga forskoti.“

Valur náði tíu stiga forskoti áður en síðasti leikhlutinn hófst. Hvað gerði ðað að verkum? „Mér fannst við ná að festa vörnina betur saman. Við náðum einhvern veginn að loka á það sem þeir voru að gera og kannski neyða þá í erfiðari skot. Fyrstu sex leikhlutina í þessari seríu hafa þeir hitt ótrúlega en við vitum að þeir hafa getuna í það. Þegar KR-ingarnir setja niður marga þrista þá er mjög erfitt að eiga við þá. Í kvöld gerðum við betur í því að verjast við þriggja stiga línuna.“

Jordan Roland átti fremur erfitt uppdráttar í kvöld. Hér þjarmar …
Jordan Roland átti fremur erfitt uppdráttar í kvöld. Hér þjarmar Jakob Örn Sigurðarson að honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jordan Roland er mikilvægur fyrir sóknina hjá Val en hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í leikjunum tveimur. Hann er í strangri gæslu og skoraði 7 stig í kvöld sem telst ekki mikið á hans mælikvarða. 

„Við þurfum að hjálpa honum meira. Mér finnst við stundum þröngva boltanum á hann í erfiðri stöðu. Er það eitt af því sem við þurfum að finna betri lausnir á. Fyrir næsta leik er mikil vinna framundan. Bæði hvað þetta varðar og finna fleiri leiðir,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson í samtali við mbl.is á hans gamla heimavelli í Frostaskjólinu í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert