Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs á Akureyri í körfubolta karla gat brosað breitt í kvöld eftir að Þór hafði lagt nafna sinn úr Þorlákshöfn, 93:79 í öðrum leik liðanna í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Einvígi liðanna stendur nú jafnt en fáir virðast hafa tekið lið Þórs alvarlega í vetur.
Bjarki, þið voruð afskrifaðir áður en mótið hófst í haust en eruð nú komnir með fyrsta sigurinn í úrslitakeppninni og lítið bara ljómandi vel út.
„Við getum unnið hvern sem er á góðum degi og þetta var góður dagur hjá okkur í dag. Varnarframmistaða okkar var frábær á móti virkilega sterku sóknarliði. Okkur tókst að hægja á Larry Thomas þrátt fyrir að hann væri að skora tuttugu stig. Hann er stórkostlegur sóknarmaður og dregur til sín menn sem opnar fyrir aðra. Við gerðum honum allt erfiðara í kvöld. Við náðum að loka á þeirra helstu hesta. “
Þeir voru þrír hjá Þór Þorlákshöfn með 20 stig en aðrir varla á blaði. Þeir virtust engan veginn finna sig þrátt fyrir að fá að leika aðeins lausum hala.
„Við erum svolítið að reyna að velja okkur skytturnar. Það eru svo margir góðir skotmenn hjá þeim. Þetta er alltaf mikil skák, hver er með hvern og svo framvegis. Þetta fór svona í dag og gekk ágætlega upp. Það var líka mikilvægt að fá stig af bekknum en Júlíus kom sterkur inn í leikinn með 12 stig. Þetta voru þörf stig sem okkur hefur oft vantað í vetur. Hlynur og Kolbeinn stóðu sig líka frábærlega. Við erum líka með meiri hæð inni í teignum og reyndum að nýta okkur það.“
Það mátti vel sjá það að Þór Þorlákshöfn var í vandræðum ef þeir sóttu inn að körfunni.
„Það var líka planið að reyna að loka teignum og gera það betur en í síðasta leik. Þetta var frábær liðsframmistaða, ég segi bara það. Svo er bara næsti leikur á sunnudaginn í Þorlákshöfn og við förum þangað til að sækja annan sigur. Það yrði gaman að sjá stuðningsmenn okkar hér og fyrir sunnan fjölmenna á leikinn og búa til þá skemmtilegu stemmningu sem var á þessum leik. Það var frábært framtak hjá Þorlákshafnarbúum að koma hingað með öflugt stuðningslið.“
Talandi um það. Það eru ár og dagar síðan andstæðingar hafa tekist svona á í stúkunni. Þetta lífgaði verulega upp á leikinn.
„Já heldur betur. Ég held að strákarnir mínir, þá sérstaklega útlendingarnir, hafi þurft að spila ansi mikið fyrir luktum dyrum eða með fáa áhorfendur. Þetta er því sérstaklega gaman fyrir þá að sjá hvað það getur verið skemmtileg stemmning á þessum stóru leikjum“ sagði brattur þjálfarinn að lokum.