Þór Akureyri og Þór Þorlákshöfn mættust í öðrum leik sínum í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í kvöld. Leikið var í Íþróttahöllinni á Akureyri og var boðið upp á mikinn spennuleik fram í hálfleik.
Heimamenn voru töluvert betri og mun hittnari í seinni hálfleik og þeir sigldu góðum sigri í land, 93:79, og jöfnuðu einvígið í 1:1.
Liðin skiptust á að hafa forustu allan fyrsta leikhlutann og það var ljóst að það var mikil spenna í lofti. Áhorfendur settu sinn svip á leikinn og var stemmningin á pöllunum afar skemmtileg. Eftir fyrsta leikhlutann var Þór Þorlákshöfn þremur stigum yfir og í upphafi annars leikhluta komust gestirnir í 21:16.
Þá var heldur betur skrúfað fyrir í sóknarleik þeirra og heimamenn náðu að snúa leiknum sér í hag með afar sterkum varnarleik. Akureyringar komust í 34:27 áður en losnaði um hjá gestunum. Bæði lið skoruðu mikið á lokamínútum leikhlutans og þá sáu oft skemmtileg tilþrif í sóknum þeirra.
Larry Thomas hafði hægt um sig allan fyrri hálfleikinn en hann átti þó líklega bestu tilþrifin þegar hann snéri Dedrick Basile af sér. Skotnýting Þorlákshafnarmanna var ekki góð allan fyrri hálfleikinn. Bæði undir körfunni og svo við þriggja stiga línuna. Staðan var 48:43 í hálfleik og útlit fyrir áframhaldandi jafnræði og spennu.
Akureyringar voru á öðru máli og þeir bara tóku leikinn í sínar hendur með góðri baráttu og skynsamlegum leik. Þeir náðu sautján stiga forskoti í þriðja leikhlutanum og hittni sunnanmanna var hreinlega neyðarlega léleg. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 72:57 og heimamenn með pálmann í höndunum. Gestirnir reyndu sitt besta til að brúa þetta bil í lokaleikhlutanum en þeir náðu bara að minnka muninn niður í átta stig snemma í leikhlutanum. Heimamenn héldu þeim eftir það í hæfilegri fjarlægð og unnu að lokum nokkuð sannfærandi 93:79.
Larry Thomas, Callum Lawson og Styrmir Snær voru allt í öllu hjá gestunum en norðanmenn áttu flestir fínan dag.
Gangur leiksins: 4:4, 9:10, 14:14, 16:19, 24:23, 29:27, 38:32, 48:43, 51:46, 60:49, 66:52, 72:57, 74:62, 77:69, 83:73, 93:79.
Þór Akureyri: Srdan Stojanovic 21/6 fráköst, Dedrick Deon Basile 17/5 fráköst/8 stoðsendingar, Ivan Aurrecoechea Alcolado 17/12 fráköst, Ohouo Guy Landry Edi 14/9 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 12, Andrius Globys 10/9 fráköst, Hlynur Freyr Einarsson 2.
Fráköst: 28 í vörn, 13 í sókn.
Þór Þorlákshöfn: Callum Reese Lawson 21/13 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 20/9 fráköst, Larry Thomas 20/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 11, Davíð Arnar Ágústsson 3, Halldór Garðar Hermannsson 2, Ragnar Örn Bragason 2.
Fráköst: 21 í vörn, 14 í sókn.
Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Johann Gudmundsson.
Áhorfendur: 235