Arnar Guðjónsson, þjálfari meistaraflokks karla, hefur gert nýjan samning við körfuknattleiksdeild Stjörnunnar og mun stýra liðinu næstu þrjú árin.
Frá þessu er greint á Facebook-síðu Stjörnunnar. Þar er einnig greint frá því að Hlynur Bæringsson, Ægir Þór Steinarsson, Gunnar Ólafsson, Tómas Þórður Hilmarsson og Arnþór Freyr Guðmundsson séu allir samningsbundnir félaginu á næsta keppnistímabili.
Arnar var ráðinn til Stjörnunnar sumarið 2018 og hafði þá búið í nokkur ár í Danmörku. Undir hans stjórn varð Stjarnan bikarmeistari 2019 og 2020.
„Auk þessa að þjálfa mfl. karla hefur hann látið til sín taka varðandi uppbyggingu yngri flokka, bæði sem þjálfari og ekki síður með því að vera ungum og efnilegum þjálfurum sem eru að hefja þjálfaraferilinn til halds og trausts. Hann er t.d. nýbúinn að landa Íslandsmeistaratitli með 8. fl stúlkna og á sinn hlut í því að Stjarnan er í dag með stærsta og öflugasta yngriflokkastarfið á landinu hjá báðum kynjum,“ segir meðal annars í tilkynningunni frá Stjörnunni.