Tímabilinu lokið hjá Mirza

Mirza Sarajlija leikur ekki meira með Stjörnunni á tímabilinu.
Mirza Sarajlija leikur ekki meira með Stjörnunni á tímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar í körfuknattleik karla, hefur staðfest að tímabili slóvenska bakvarðarins Mirza Sarajlija sé lokið með liðinu eftir að hann reif liðþófa í hné.

Mirza þurfti að fara sárkvalinn af velli eftir að hafa meiðst á hné í öðrum leik Stjörnunnar og Grindavíkur í átta liða úrslitum Íslandsmótsins á þriðjudagskvöld, þegar heimamenn í Grindavík unnu og jöfnuðu þar með einvígið í 1:1.

„Hann er búinn út leiktíðina, liðþófinn er farinn. Þetta er svona átta vikna skeið sem þetta tekur líklegast,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.

Gunnar Ólafsson þurfti einnig að fara meiddur af velli í leiknum á þriðjudagskvöld en Arnar er þó öllu bjartsýnni þegar kemur að meiðslum hans.

„Þetta er líklega mar en ekki brákað rifbein, hann er ekki brákaður skilst mér. Við erum svona að bíða og sjá hvernig hann verður í dag. Við erum að vonast til þess að þetta sé bara mar en ekki brot.

Hann kíkir til læknis en ég er mjög bjartsýnn á hann, að hann verði með áfram. Ég reikna með því. Ég veit meira með hann í kvöld en hann verður í plani mínu fyrir laugardaginn,“ sagði hann.

Ekki eru fleiri leikmenn Stjörnunnar á meiðslalistanum. „Nei ég held að þetta sé andskotans nóg í bili. Miðað við allt það sem er búið að ganga á í vetur held ég að þetta sé nóg í bili.

En það þýðir ekkert að gráta Björn bónda og það er bara að sanna liðið og áfram gakk. Við bítum í skjaldarrendur, það er bara þannig,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.

Stjarnan og Grindavík mætast í þriðja leik liðsins í Garðabænum næstkomandi laugardag. Þar endurheimta Stjörnumenn Hlyn Bæringsson, sem var í leikbanni í síðasta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert