Siauliai, lið Elvars Más Friðrikssonar, mátti þola stórt tap gegn Rytas, 98:60, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitunum um litháíska meistaratitilinn í körfuknattleik í dag.
Einvígi liðanna var frestað í síðustu viku þegar upp komu sjö smit í hópi leikmanna og starfsliðs Siauliai og marga sterka leikmenn vantaði í dag, þar á meðal Elvar sem var á dögunum valinn besti leikmaður deildarinnar.
Liðin eiga að mætast öðru sinni á heimavelli Siauliai á laugardaginn en ekki er ljóst hvort ástandið verði þá orðið betra á leikmannahópnum. Rytas endaði í öðru sæti deildarinnar í vetur og Siauliai í því sjöunda.
Öllum öðrum leikjum í átta liða úrslitunum er lokið en tvo sigra þarf til að komast í undanúrslit. Stórlið Zalgiris Kaunas er komið áfram ásamt Juventus og Lietkabelis. Síðarnefnda liðið verður andstæðingur Rytas eða Siauliai.