Haukar mæta Val í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik og tryggðu sér það með yfirburðasigri gegn Keflvíkingum á Ásvöllum í þriðja leik liðanna í kvöld, 80:50.
Haukakonur stungu af strax í fyrsta leikhluta en staðan var 23:8 að honum loknum. Bilið breikkaði enn, var 41:20 í hálfleik og 70:35 eftir þriðja leikhluta, en Keflavík lagaði stöðuna örlítið í þeim fjórða.
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 22 stig fyrir Hauka og Bríet Sif Hinriksdóttir systir hennar 15 en Alyesha Lovett skoraði 13 stig. Daniela Wallen skoraði 17 stig fyrir Keflvíkinga.