Þór frá Þorlákshöfn er kominn í 2:1 í einvígi sínu gegn Þór frá Akureyri í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta eftir 109:104-heimasigur í stórskemmtilegum þriðja leik liðanna í kvöld.
Gestirnir frá Akureyri fóru betur af stað og voru með 33:26-forystu eftir fyrsta leikhlutann. Liðin skiptust á að raða niður þriggja stiga körfum og var nýtingin fyrir aftan línuna til fyrirmyndar hjá báðum liðum.
Heimamönnum tókst að minnka muninn í öðrum leikhluta og munaði aðeins þremur stigum á liðunum í hálfleik. Heimamenn héldu áfram að spila vel í þriðja leikhluta og raða niður þriggja stiga körfum. Að lokum voru Þorlákshafnar Þórsarar búnir að komast yfir í leikhlutanum og var munurinn sjö stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 88:81.
Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en þrátt fyrir að hafa komist nærri því nokkuð oft héldu Þórsarar frá Þorlákshöfn út og fögnuðu sigri.
Um sannkallaða skotsýningu var að ræða því heimamenn skoruðu átján þriggja stiga körfur gegn sextán hjá gestunum.
Icelandic Glacial höllin, Dominos deild karla, 23. maí 2021.
Gangur leiksins:: 9:8, 14:13, 21:25, 23:33, 34:40, 39:43, 47:52, 54:57, 65:60, 74:65, 76:77, 88:81, 92:86, 98:92, 103:97, 109:104.
Þór Þorlákshöfn: Larry Thomas 29/5 fráköst/10 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 25/9 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 25, Davíð Arnar Ágústsson 10, Emil Karel Einarsson 9, Halldór Garðar Hermannsson 6/11 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 3, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2.
Fráköst: 16 í vörn, 8 í sókn.
Þór Akureyri: Dedrick Deon Basile 27/6 fráköst/11 stoðsendingar, Andrius Globys 18, Ohouo Guy Landry Edi 18/5 fráköst, Ivan Aurrecoechea Alcolado 15/7 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 13, Kolbeinn Fannar Gíslason 12, Hlynur Freyr Einarsson 1.
Fráköst: 17 í vörn, 6 í sókn.
Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.
Áhorfendur: 150