„Ég er sár og svekktur með þetta tap því okkur langaði mikið að klára þessa seríu hérna í kvöld,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 95:92-tap liðsins gegn Grindavík í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í HS Orku-höllinni í Grindavík í kvöld.
„Varnarleikurinn hjá okkur var ekki nægilega góður í kvöld og þeir skoruðu of auðveldlega á okkur. Á sama tíma voru Grindvíkingarnir mjög góðir og þeir fóru bara virkilega illa með okkur.
Við skoruðum nóg til þess að vinna leikinn en á sama tíma fengu þeirra bestu skotmenn of mikið af góðum skotum og það er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir föstudaginn,“ sagði Arnar.
Stjarnan hefur farið illa með Grindavík í einvíginu í leikjum liðanna í Garðabæ.
„Þetta var bara ekki nægilega gott frá okkur öllum í kvöld en við fáum annan séns og okkur hlakkar til að nýta hann eins vel og hægt er.
Okkur hefur gengið vel gegn þeim í Garðabænum og eigum við ekki að vona að það verði eins á föstudaginn. Til þess þurfum fyrst og fremst að vera betri varnarlega en það var okkar stærsta vandamál í dag.“
Mun einvígið við Grindavík sitja í Garðbæingum, ef þeir komast áfram í undanúrslitin, þegar til lengri tíma er litið í úrslitakeppninni?
„Það er erfitt fyrir mig að svara þessar spurningu því ég á ekki margar mínútur sjálfur í úrslitakeppninni.
Við erum með mjög gott teymi, styrktar- og sjúkraþjálfara, sem passar vel upp á strákana og að þeir fái góða hvíld. Vonandi sýnir það sig á föstudaginn,“ bætti Arnar við.