Grindavík knúði fram oddaleik gegn Stjörnunni

Ægir Þór Steinarsson og Dagur Kár Jónsson eigast við í …
Ægir Þór Steinarsson og Dagur Kár Jónsson eigast við í fyrsta leik liðanna 15. maí. Mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Grindavík og Stjarnan þurfa að mætast í oddaleik í einvígi sínu um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins en þetta varð ljóst eftir 95:92-sigur Grindavíkur gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í HS Orku-höllinni í kvöld.

Garðbæingar byrjuðu leikinn betur og á meðan Grindvíkingum gekk illa að hitta úr skotunum sínum.

Stjarnan komst níu stigum yfir, 12:3 en Grindavík tókt að minnka muninn í tvö stig þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta í 14:16.

Grindvíkingar komust yfir, 20:19, þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta en Stjarnan svaraði um hæl og var staðan 22:22 að honum loknum.

Mikið jafnfræði var með liðunum í öðrum leikhluta og skiptust liðin á að skora.

Grindvíkingar voru hin svegar sterkari undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 43:41.

Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks en þegar mínúta var eftir af leikhlutanum kom Þorleifur Ólafsson Grindvíkingum fjórum stigum yfir, 67:63.

Garðbæingar minnkuðu muninn í tvö stig, 65:67, en þá tók við ótrúlegur leikkafli hjáGrindavík sem skoruðu fimm stig í röð og þeir leiddu með sjö stigum fyrir fjórða leikhluta, 72:65.

Grindvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti og náðu snemma fjórtán stiga forskoti, 84:70.

Garðbæingar bókstaflega neituðu að gefast upp og var munurinn á leiðunum eitt stig þegar nítján sekúndur voru til leiksloka, 93:92.

Grindvíkingar köstuðu boltanum frá sér og það sama gerðu Stjörnumenn.

Grindvíkingar fengu tvö vítaskot sem þeir skoruðu úr og Garðbæingar freistuðu þess að jafna metin en brást bogalistin fyrir utan þriggja stiga línuna og Grindavík fagnaði sigri.

Liðin þurfa því að mætast í oddaleik í Garðabænum á föstudaginn kemur þar sem sigurvegarinn tryggir sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Getur Grindavík unnið í Garðabæ?

Stjörnumenn geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki gengið frá einvíginu í kvöld.

Þeir voru langt frá sínum besta degi en samt sem áður þá tókst þeim að halda leiknum jöfnum og spennandi allan tímann.

Þeir náðu níu stiga forskoti strax í fyrsta leikhluta og hefðu alveg getað gengið á lagið því það gekk ekkert upp hjá Grindavík á fyrstu mínútunum.Þeir hleyptu þeim hins vegar aftur inn í leikinn með smá kæruleysi og við það fengu Grindvíkingar blóð á tennurnar.

Garðbæingar mættu illa stemdir til leiks í fjórða leikhluta og Grindvíkingar gengu á lagið.

Þeir náðu fjórtán stiga forskoti en þrátt fyrir það komu Stjörnumenn sér inn í leikinn á ný og fengu svo sannarlega færin til þess að ganga frá leiknum.

Skotin vildu hins vegar ekki niður þegar mest á reyndi og maður fékk það hálfpartinn á tilfinninguna að Garðbæingar vildu klára einvígið í oddaleik í Garðabæ.

Það munar ótrúlega miklu fyrir Grindavík að vera með Þorleif Ólafsson í leikmannahópnum því hann býr yfir reynslu sem fáir leikmenn liðsins búa yfir.

Hann kemur með mikla ró inn á völlinn og á bekkinn og hefur séð þetta allt áður. Það er því erfiðara að slá liðið út af laginu með hann í hópnum.

Eins vel og Grindavík hefur spilað í einvíginu í Grindavík hefur liðið verið langt frá sínu besta í Garðabænum og það er aðal áhyggjuefni Grindvíkinga fyrir föstudaginn þegar oddaleikurinn fer fram.

Spurningin er því hvort Grindavík getur haldið uppteknum hætti í Garðabænum, án heimavallarsins, eða hvort þeir brotni þegar þeir lenda undir eins og raunin hefur verið í síðustu tveimur leikjum liðanna í Garðabænum.

Grindavík - Stjarnan 95:92

HS Orku-höllin, Dominos deild karla, 25. maí 2021.

Gangur leiksins:: 3:10, 7:14, 17:19, 22:22, 28:25, 33:32, 38:38, 43:41, 45:46, 53:54, 61:60, 72:65, 84:73, 86:79, 88:84, 95:92.

Grindavík: Amenhotep Kazembe Abif 19/5 fráköst, Joonas Jarvelainen 19/11 fráköst, Dagur Kár Jónsson 16/6 fráköst/11 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 12/8 fráköst/3 varin skot, Ólafur Ólafsson 12/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 11, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 3/8 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 3.

Fráköst: 37 í vörn, 10 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 34/5 fráköst/13 stoðsendingar, Austin James Brodeur 18/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 17/8 fráköst, Alexander Lindqvist 11, Arnþór Freyr Guðmundsson 9, Hlynur Elías Bæringsson 2/9 fráköst, Dúi Þór Jónsson 1.

Fráköst: 29 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 225

Grindavík 95:92 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert