Sigtryggur Arnar og félagar í undanúrslit

Sigtryggur Arnar Björnsson í leik með íslenska landsliðinu.
Sigtryggur Arnar Björnsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

Sigtryggur Arnar Björnsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og leikmaður Leyma Coruna í spænsku B-deildinni, er kominn ásamt liðsfélögum sínum í spænska liðinu í undanúrslit umspils um að komast upp í 1. deildina.

Coruna lagði lið Oviedo með miklum naumindum í dag, 70:69, og er þar með búið að vinna einvígið samtals 2:0 eftir að hafa einnig unnið fyrri leik liðanna síðastliðinn föstudag, 74:66.

Í leiknum í dag leiddi Coruna örugglega, 41:28 í hálfleik, en Oviedo spýtti í lófana og var ofan á í baráttunni í síðari hálfleik.

í blálokin komst Oviedo yfir í fyrsta sinn í leiknum, 68:69, með þriggja stiga körfu en það var Coruna sem skoraði síðustu tvö stigin og tryggði sér þar með sigur og sæti í undanúrslitunum.

Sigtryggur Arnar komst ekki á blað í leiknum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert