„Eins og við vitum eru KR-ingarnir bestir á útivelli þannig að heimavöllurinn er kannski ekki það besta fyrir okkur. En er þetta ekki það sem allir vildu, fimm leikja sería?“
Svo spurði Hjálmar Stefánsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að liðið vann sterkan 88:82 útisigur gegn KR og knúði þannig fram oddaleik á heimavelli sínum í einvígi liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik.
Eftir sigur kvöldsins er einvígið nú jafnt, 2:2, og hafa allir fjórir sigrarnir fallið í skaut útiliðsins. Hjálmar sagði að þrátt fyrir að Valur hafi líkt og KR unnið báða útileiki sína í einvíginu séu Valsmenn ekki jafn sterkir og KR hafa verið á útivelli.
„Nei ég held ekki, þetta er bara þannig að maður hittir stundum á daga. Við hittum á okkar dag núna og vonandi gerum við það aftur. Ég veit ekki hvernig þeir skutu en kannski var þetta eini leikurinn þar sem þeir voru ekki að skjóta yfir 50 prósent í þristum og það er risastórt,“ sagði hann, en KR var með 36 prósent skotnýtingu úr þriggja stiga tilraunum sínum.
Góður varnarleikur Valsmanna átti stóran þátt í að KR-ingar hittu jafn illa úr þriggja stiga skotum og raunin varð.
„Já við komum okkur saman og breyttum varnarplaninu. Það virkaði allavega núna, við fáum á okkur 82 stig, í síðasta leik fengum við á okkur yfir 100 stig þannig að það var góð breyting.“
Um oddaleikinn á föstudaginn næstkomandi sagði Hjálmar: „Ég held að þetta verði bara frábær skemmtun og örugglega aftur rosalega jafn leikur.“