Valur knúði fram oddaleik

Helgi Már Magnússon og Jón Arnór Stefánsson í baráttunni í …
Helgi Már Magnússon og Jón Arnór Stefánsson í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Valur vann sterkan 88:82 útisigur gegn nágrönnum sínum í KR í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla á Meistaravöllum í Vesturbæ í kvöld og jafnaði þar með einvígið í 2:2. Um var að ræða fjórða útisigurinn í röð í einvíginu og þurfa liðin nú að spila fimmta leikinn, oddaleik, í Origo-höllinni að Hlíðarenda til þess að knýja fram sigurvegara.

Heimamenn í KR byrjuðu leikinn af gífurlegum krafti og voru komnir í 0:8 innan tveggja mínútna. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Valsmanna beið ekki boðanna og tók strax leikhlé. Eftir að KR hafði mest náð níu stiga forystu, 4:13, í fyrsta leikhlutanum, unnu Valsmenn sig mjög vel inn í leikinn og áður en langt um liðið var staðan orðin 11:15.

Gestirnir í Val hertu enn frekar tökin og minnkuðu muninn í aðeins eitt stig, 19:20. Þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta komust Valsmenn yfir í fyrsta skipti í leiknum, 25:23. Var forskot gestanna eitt stig að loknum fyrsta leikhluta, 28:27.

Í öðrum leikhluta áttu KR-ingar í miklum erfiðleikum með að skora til að byrja með. Fyrstu stig þeirra í leikhlutanum komu ekki fyrr en að rúmum þremur mínútum liðnum. Valsmenn skoruðu ekki sérlega mikið heldur til að byrja með í leikhlutanum.

Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru Valsmenn með nauma forystu, 35:32. Þeir skoruðu svo næstu níu stig og náðu þannig mest 12 stiga forystu, 44:32.

Eftir það náðu KR-ingar aðeins að laga stöðuna og staðan í leikhléi 50:43. Pavel Ermolinski fór fyrir Valsmönnum í fyrri hálfleiknum og skoraði 16 stig, þar af fjórar þriggja stiga körfur úr sex tilraunum.

Í þriðja leikhluta var mikið jafnræði með liðunum, sem var Val í hag, þar sem liðið náði að halda í forystu sína. KR náði að minnka muninn í þrjú stig, 62:59, en Valsmenn sigldu fram úr að nýju undir lok leikhlutans og voru með átta stiga forystu að loknum þriðja leikhluta, 71:63.

Valsmenn byrjuðu fjórða og síðasta leikhluta vel og náðu fljótt 13 stiga forystu, 78:65, sem var sú mesta í leiknum. KR-ingar brugðust vel við og settu tvær þriggja stiga körfur niður í röð, staðan því orðin 78:71.

Að endingu komust KR-ingar ekki mikið nær og náðu Valsmenn að lokum að vinna sex stiga sigur, 88:82.

Helsti munurinn á liðunum í kvöld var sterkur varnarleikur Valsmanna, sem náðu að loka vel á Ty Sabin, einn besta skotmann úrvalsdeildarinnar, á löngum stundum, þrátt fyrir að hann skori alltaf sín stig.

Valsmenn náðu einnig oft, sérstaklega í síðari hálfleik, að þröngva KR-ingum í erfiðar skotstöður þar sem þriggja stiga tilraunir heimamanna geiguðu oftar en þeir eru vanir.

Eftir að Valsmenn komust yfir seint í fyrsta leikhluta létu þeir forystu sína aldrei af hendi og sigurinn að lokum fyllilega verðskuldaður.

Liðin mætast í oddaleik sínum strax næsta föstudagskvöld, þann 28. maí. Hefst leikurinn klukkan 20.15 og fer sem áður segir fram í Origo-höllinni að Hlíðarenda.

KR - Valur 82:88

Meistaravellir, Dominos deild karla, 26. maí 2021.

Gangur leiksins:: 10:2, 15:11, 23:22, 27:28, 27:33, 32:37, 35:44, 43:50, 47:52, 52:59, 61:66, 63:71, 65:76, 73:80, 75:84, 82:88.

KR: Brandon Joseph Nazione 21/5 fráköst, Tyler Sabin 15/10 fráköst/6 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 12/4 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 11/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 9, Zarko Jukic 9/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 5.

Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.

Valur: Miguel Cardoso 22, Pavel Ermolinskij 16/11 fráköst/6 stoðsendingar, Sinisa Bilic 16/5 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 13, Jordan Jamal Roland 9/4 fráköst, Kristófer Acox 8/9 fráköst, Hjálmar Stefánsson 4/6 fráköst.

Fráköst: 25 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Ísak Ernir Kristinsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

KR 82:88 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert