Þór Akureyri og Þór Þorlákshöfn spiluðu fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfubolta í kvöld. Spilað var í Íþróttahöllinni á Akureyri en staðan fyrir leik var 2:1 fyrir Þór Þorlákshöfn.
Gestirnir gátu því tryggt sig áfram í undanúrslit með því að vinna leikinn í kvöld. Leikurinn varð aldrei sá spennuleikur sem menn vonuðust eftir og Þorlákshafnar Þór vann stórsigur, 98:66.
Eftir jafnræði á upphafsmínútunum tóku gestirnir frá Þorlákshöfn leikinn í sínar hendur og eftir fyrsta leikhlutann var staðan 32:17. Gestirnir byrjuðu leikinn á að sækja tveggja stiga körfur inni í teig en skiptu svo yfir í opin þriggja stiga skot. Þetta svínvirkaði hjá þeim og sóknarleikurinn virkaði mjög áreynslulítill. Lítið gekk hjá Akureyringum í upphafi annars leikhlutans og hvert skotið á fætur öðru fór á hringinn. Grænklæddir sunnanmenn bættu þá í forskot sitt sem mest varð tuttugu stig, 37:17.
Heimamenn bættu sinn leik, enda varla annað hægt, og smám saman minnkaði bilið niður í tólf stig. Gestirnir tóku þá aftur við sér og leiddu í hálfleik með sextán stigum, 48:32.
Dedrick Basile í liði Akureyringa var stigalaus í hálfleik en stigaskor í báðum liðum dreifðist vel. Callum Lawson var kominn með tólf stig í hálfleik fyrir Þór Þorlákshöfn.
Þriðji leikhlutinn var mikill bardagi og menn svoleiðis hrúguðu upp villunum. Gestirnir voru áfram í bílstjórasætinu og sveiflaðist forskot þeirra í kringum tuttugu stigin. Þegar honum lauk var staðan 49:73 og lítil von fyrir heimamenn að koma til baka.
Sú von slokknaði fljótt og staðan varð 81:51. Leikurinn fjaraði svo hægt og rólega út og lauk með öruggum sigri gestanna 98:66.
Þórsarar bíða nú eftir því að sjá hvaða andstæðinga þeir fá í undanúrslitum en fjögur lið koma enn til greina, KR, Valur, Stjarnan eða Grindavík. Það yrði nú gaman fyrir þá að fá Grindavík og keyra Suðurstrandarveginn fram og til baka á meðan á gosinu stendur og hraun vellur í átt að veginum.
Höllin Ak, Dominos deild karla, 26. maí 2021.
Gangur leiksins:: 5:6, 7:12, 12:19, 17:32, 17:39, 20:41, 27:43, 32:48, 36:57, 43:63, 47:70, 49:73, 51:79, 57:85, 62:91, 66:98.
Þór Akureyri: Ohouo Guy Landry Edi 16/8 fráköst, Ivan Aurrecoechea Alcolado 13/16 fráköst, Srdan Stojanovic 10, Dedrick Deon Basile 9, Andrius Globys 8/5 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 8, Ragnar Ágústsson 2.
Fráköst: 18 í vörn, 18 í sókn.
Þór Þorlákshöfn: Callum Reese Lawson 22/8 fráköst, Larry Thomas 17/10 fráköst/9 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 14, Emil Karel Einarsson 11, Styrmir Snær Þrastarson 9/10 fráköst/6 stoðsendingar, Adomas Drungilas 8/10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 6/6 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 2, Ingimundur Orri Jóhannsson 2.
Fráköst: 37 í vörn, 13 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Aron Rúnarsson.
Áhorfendur: 345