Lárus Jónsson, þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn, er kominn með lið sitt í undanúrslit í Dominos-deild karla í körfubolta. Þórsarar fóru í dag til Akureyrar þar sem þeir hreinlega völtuðu yfir nafna sína. Leik liðanna lauk 98:66 og einvígið fór því 3:1 fyrir Þór Þorlákshöfn.
Þriðji leikur liðanna í þessu einvígi var jafn og spennandi en þið voruð með þennan leik bara í hendi nánast frá byrjun. Hvað veldur?
„Við náðum yfirhöndinni frekar snemma og spiluðum miklu betri vörn en í síðustu leikjum. Þegar Adomas er með okkur inni í miðjunni þá þarf ekki að hjálpa jafn mikið með Ivan og þeir þurftu að taka miklu erfiðari þriggja stiga skot heldur en þeir hafa verið að gera. Svo náðum við að halda Basile niðri og Srdan svona nokkurn veginn. Það var eiginlega vörnin sem vann þennan leik fannst mér.
Mér virtist sóknarleikurinn einnig vel upp settur. Þið sóttuð körfur úr teignum til að byrja með en svo þegar búið var að þrýsta öllu inn að körfunni þá komu fríir þristar í röðum. Var þetta leikplanið í fyrsta leikhlutanum?
„Við vorum komnir með meiri dýpt í sóknarleikinn þegar Adomas er með. Hann tekur mikið til og ef hann er ekki tvöfaldaður þá getur hann yfirleitt skorað. Þú þarft alla vega að draga vörnina aðeins að og þá er meira pláss fyrir skytturnar. Við höfum verið að spila austur vestur en með honum getum við líka farið suður norður. Hann gefur okkur aðra vídd.“
Það voru fjölmargir áhorfendur á leiknum og þið eyðilögðuð partíið fyrir flestum þeirra. Þið áttuð nokkra öfluga stuðningsmenn í stúkunni.
„Við fengum frábæran stuðning og ég er þvílíkt þakklátur fyrir það að fólk sé að leggja leið sína hingað. Ég segi nú alltaf að þetta sé bara skreppitúr ég tala nú ekki um þegar komið er fram á sumar. Þá er maður enga stund að renna þetta. Það var gaman að sjá þau og ég þakka þeim kærlega fyrir að koma.“
Þá er það næsta mál og næsti andstæðingur. Það er allt opið með það hverjum þið mætið næst. Stjarnan, KR eða Valur. Það er væntanlega mikill hugur í ykkur eftir að hafa náð öðru sæti í deildinni og tekið þetta einvígi sæmilega sannfærandi.
„Við erum nokkuð brattir. Það er ýmislegt búið að ganga á. Adomas er búinn að vera marga leiki í banni og við höfum þurft að aðlaga leik okkar að því. Svo missteig Styrmir sig en þá bara stigu aðrir upp. Við erum samt aldrei búnir að ná okkar takti almennilega. Vonandi er það að koma núna. Það eru allir heilir og Adomas er ekki í banni. Vonandi erum við að ná góðum takti.“
Það eru svo leikmenn hjá þér sem gætu átt eitthvað inni eins og t.d. Halldór Garðar.
„Hann stjórnar leiknum mjög vel en skorar kannski minna en áður. Það er hans hlutverk núna, þegar Larry er útaf. Svo er hann mikilvægur í vörninni og er að frákasta meira en áður. Hann er svolítill leiðtogi í liðinu og er að standa sig vel. Það er bara að hann er í öðruvísi hlutverki en áður en hann getur alveg hent í 30 stiga leik upp úr þurru“ sagði Lárus að lokum.