Kom allt með góðum varnarleik

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. Kristinn Magnússon

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með 104:72 sigurinn gegn Grindavík í oddaleik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld eftir það sem honum þótti erfitt einvígi.

„Ég er bara ánægður. Þetta er búin að vera erfið sería á móti góðu Grindavíkur-liði og við einhvern veginn hittum betur á spennustigið í dag og það skipti sköpum,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is að leik loknum.

Yfirburðir Stjörnunnar voru miklir í leik kvöldsins og því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Arnari hafi þótt sem liðið hafi átt að klára einvígið fyrr.

„Nei þeir voru betri en við í báðum leikjunum í Grindavík þannig að þá áttum við ekki að vinna, þeir áttu að vinna þá vegna þess að þeir spiluðu betur en við,“ sagði hann ákveðinn. Stjarnan vann alla þrjá heimaleiki sína í einvíginu og Grindavík vann báða heimaleiki sína.

Stjarnan spilaði góðan varnarleik og fékk auk þess mjög gott framlag frá mörgum leikmönnum, þar á meðal Dúa Þór Jónssyni, sem kom inn af varamannabekknum og endaði stigahæstur með 19 stig.

„Dúi gaf okkur mikið í dag. Ég held að það hafi svolítið allt komið með varnarleiknum hjá okkur í kvöld. Varnarleikurinn var góður og við komum svolítið með því inn í þetta, hann gaf okkur orku sem við náðum að nýta. Stundum stjórnast maður af sókn, stundum stjórnast maður af vörn. Það er yfirleitt betra að stjórnast af vörninni,“ sagði Arnar.

Fram undan er einvígi við Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum. Hvernig líst honum á það? „Bara illa, þeir eru drullugóðir! Það verður önnur hörkusería á móti mjög góðu körfuboltaliði,“ sagði Arnar að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka