Stjarnan gjörsigraði Grindavík í oddaleiknum

Ægir Þór Steinarsson á leið að körfu Grindvíkinga en hann …
Ægir Þór Steinarsson á leið að körfu Grindvíkinga en hann skoraði 12 stig fyrir Stjörnuna í fyrsta leikhluta. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan lék á als oddi þegar liðið vann gífurlega öruggan 104:72 sigur gegn Grindavík í oddaleik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Garðabænum í kvöld. Liðið er þar með komið í undanúrslitin og mætir þar Þór Þorlákshöfn.

Stjörnumenn hófu leikinn af gífurlegum krafti og voru komnir í 14:2 forystu eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Grindvíkingar tóku þá umsvifalaust leikhlé en það bar ekki þann árangur sem þeir hefðu viljað.

Stjörnumenn voru enda enn við völd og náðu mest 16 stiga forskoti undir lok leikhlutans. Var staðan að loknum fyrsta leikhluta 31:15, Stjörnumönnum í vil.

Heimamenn voru ekkert á því að láta þessa góðu forystu af hendi í öðrum leikhlutanum og héldu áfram að þjarma að Grindvíkingum. Náðu Stjörnumenn mest 24 stiga forystu í leikhlutanum, 46:22.

Grindvíkingar löguðu stöðuna aðeins áður en flautað var til hálfleiks en munurinn þó 19 stig, 49:30, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Eftir örlítinn skrekk alveg í upphafi síðari hálfleiks þar sem nokkur skot geiguðu og nokkrir boltar töpuðust komust Stjörnumenn fljótt aftur vel inn í leikinn og enn áræðnari en áður.

Yfirburðirnir í þriðja leikhlutanum reyndust enda svakalegir þar sem Stjörnumenn náðu mest 36 stiga forystu, 80:44. Allt virtist ganga upp í leikhlutanum og setti Arnþór Freyr Guðmundsson til að mynda þrjár þriggja stiga körfur á skömmum tíma. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 82:47.

Arnþór Freyr byrjaði fjórða leikhlutann á sömu nótum og setti niður þrist sem þýddi að forystan var orðin orðin 38 stig, sú mesta í leiknum.

Fjórði leikhlutinn var einungis formsatriði þar sem varamannabekkur Stjörnumanna fékk að spreyta sig og Grindvíkingar freistuðu þess einungis að minnka forskotið eins og hægt var. Lauk leiknum með öruggum 32 stiga sigri Stjörnumanna, 104:72.

Ægir Þór Steinarsson átti stórleik í liði Stjörnunnar þar sem hann stjórnaði sóknarleik sinna manna eins og herforingi, tók góðar ákvarðanir þar sem hann skaut vel og átti nokkrar afar laglegar stoðsendingar.

Grindvíkingar réðu auk þess ekkert við hraða hans og færni með boltann enda dripplaði hann framhjá þeim nánast að vild. Náði Ægir Þór tvöfaldri tvennu, þar sem hann skoraði 15 stig og gaf 13 stoðsendingar, auk þess að taka sex fráköst.

Þá kom Dúi Þór Jónsson gífurlega sterkur inn af varamannabekknum og endaði stigahæstur í leiknum með 19 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur úr sjö tilraunum.

Stigunum skiptu Stjörnumenn bróðurlega á milli sín. A.J. Brodeur var næststigahæstur með 18 stig, Arnþór Freyr var með 12 stig, allt eftir ofangreindar þriggja stiga körfur, Alexander Lindqvist var einnig með 12 stig og Gunnar Ólafsson skoraði 11 stig.

Eins og sóknarleikurinn var frábær átti góður og agaður varnarleikur, þar sem gamla brýnið Hlynur Bæringsson var sérstaklega öflugur einu sinni sem áður, stóran þátt í því að sigurinn var jafn öruggur og raunin varð.

Gangur leiksins: 9:2, 16:7, 24:10, 31:15, 35:17, 39:19, 46:22, 49:30, 56:33, 64:37, 70:42, 82:47, 88:56, 91:58, 96:62, 104:72.

Stjarnan: Dúi Þór Jónsson 19, Austin James Brodeur 18/10 fráköst/3 varin skot, Ægir Þór Steinarsson 15/6 fráköst/13 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 12, Alexander Lindqvist 12/4 fráköst, Gunnar Ólafsson 11, Tómas Þórður Hilmarsson 7/9 fráköst, Hilmir Hallgrímsson 3, Orri Gunnarsson 3, Hugi Hallgrímsson 2, Hlynur Elías Bæringsson 2/11 fráköst/8 stoðsendingar.

Fráköst: 35 í vörn, 12 í sókn.

Grindavík: Amenhotep Kazembe Abif 15, Kristinn Pálsson 14/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 14/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 10/8 fráköst/5 stoðsendingar, Joonas Jarvelainen 10/5 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5/4 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 2, Bragi Guðmundsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 298

Stjarnan 104:72 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert