KR sló Val út eftir dramatískan oddaleik

Leikmenn KR fagna sigri í kvöld.
Leikmenn KR fagna sigri í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

KR er komið í undanúrslit Íslandsmóts karla í körfuknattleik en Valur er úr leik. KR vann oddaleik liðanna 89:86 á Hlíðarenda í kvöld og rimmuna samtals 3:2. 

Allir leikirnir í rimmunni unnust á útivelli. KR komst yfir 1:0, 2:1 og loks 3:2. Vonin um að vinna Íslandsmótið sjöunda skiptið í röð er því enn til staðar hjá KR-ingum en þeir unnu frá 2014 - 2019. Í fyrra tókst ekki að ljúka mótinu vegna kórónuveirunnar. 

KR var yfir að loknum fyrri hálfleik 50:41. Liðið hafði náð þrettán stiga forskoti um tíma í öðrum leikhluta. Valsmenn voru hins vegar grimmir í þriðja leikhluta. Spiluðu þá betri vörn en í fyrri hálfleik og jöfnuðu leikinn. 

KR komst aftur yfir en Valur náði fimm stiga forskoti 74:69 þegar fimm mínútur voru eftir. Þá virtist eins og Valur gæti verið að ná tökum á leiknum. Tyler Sabin er mikill galdrakarl á körfuboltavellinum og þá kom hann KR til hjálpar. Setti niður þrista í tveimur sóknum í röð og kom KR aftur yfir. 

Stuðningsmenn KR fagna í Valsheimilinu í kvöld.
Stuðningsmenn KR fagna í Valsheimilinu í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Á æsispennandi lokamínútum var það einnig Sabin sem réði úrslitum. Þegar 46 sekúndur voru eftir setti hann niður þrist og kom KR yfir 83:81. Sú karfa reyndist mikilvæg. Á lokakaflanum setti Sabin einnig niður fjögur vítaskot og átti stærstan þátt í því að KR hafði betur á lokamínútunum. 

Á lokamínútum leiksins var enginn Jón Arnór Stefánsson til að trufla Sabin. Því hefur hann sjálfsagt verið feginn en gamli refurinn gerði honum á köflum erfitt fyrir í rimmunni. Eins langt og það nær hjá 39 ára gömlum manni gegn leikmanni eins og Sabin. Jón fékk tvær villur á skömmum tíma og fór út af með 5 villur þegar þrjár mínútur voru eftir. Á lokamínútunni fór Jakob Örn Sigurðarson sömu leið hjá KR. Sabin skoraði alls 26 stig. 

Í síðustu sókn leiksins fékk Valur boltann þegar sex sekúndur voru eftir. Jordan Roland fékk boltann og hann ætlaði sér greinilega að bruna fram og koma sér í skot. Leitaði ekki að samherja og þegar hann var nánast umkringdur KR-ingum hrasaði hann og ekkert varð úr skotilrauninni. Kannski lýsandi fyrir Roland sem átti erfitt uppdráttar í rimmunni. Það reyndist dýrt þegar uppi var staðið en margir höfðu spáð því að Roland myndi vera í stóru hlutverki í þessari rimmu. Jakob Örn stóð sig frábærlega í að halda aftur af Roland en þó ber að nefna að leikurinn í kvöld var líklega sá besti hjá Roland í úrslitakeppninni. Hann skoraði úr nokkrum erfiðum skotum og alls 19 stig. 

Hlaðborð af skyttum

Eftir þvílíka rimmu hjá þessum erkifjendum í íþróttalífi höfuðborgarinnar, sem bauð upp á allt, er sorglegt að annað liðið þurfi að falla úr keppni. Það varð hlutskipti Valsmanna. Eftir stöðugan leik í vetur og raunar einnig síðasta vetur eru deildarmeistararnir í Keflavík það lið sem kalla mátti sigurstranglegast eftir deildakeppnina. Þeir hafa unnið fyrir því. Eftir sveiflukennt gengi í vetur er ljóst að KR-liðið verður ekki svo auðveldlega lagt að velli í rimmum. 

Breiddin er mikil í KR-liðinu. Ekki síst varðandi skyttur í sókninni. Þar er nánast hlaðborð í boði fyrir þjálfarann Darra Frey Atlason. Þegar kemur að þriggja stiga skotum eru Tyler Sabin, Jakob Örn Sigurðarson, Brynjar Þór Björnsson, Matthías Orri Sigurðarson, Helgi Már Magnússon, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Björn Kristjánsson allt úrvalskostir. Ef andstæðingar KR lenda í jöfnum leikjum á móti þeim þá getur Sabin skorar ótrúlegar körfur á lokakaflanum. Það sýndi hann í kvöld og einnig í fyrsta leiknum á Hlíðarenda sem þurfti að framlengja. 

Kristófer Acox sækir að körfu KR-inga í leiknum á Hlíðarenda …
Kristófer Acox sækir að körfu KR-inga í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Á köflum í rimmunni tókst Valsmönnum að halda ágætlega aftur af KR-ingum í þriggja stiga skotunum en erfitt er að gera það til lengdar. Vopnin eru svo mörg. Ég hef fyrir löngu lært að afskrifa ekki KR í úrslitakeppninni. Það gerði ég ekki í vetur og ekki í fyrra heldur þótt gengið í deildakeppninni væri upp og ofan. Gömlu leikmennirnir eins og Jakob, Brynjar og Helgi eru bara allt önnur dýrategund þegar komið er í þessa leiki þar sem allt er undir. Sama má segja um reyndustu menn Vals, Jón Arnór og Pavel. Ljóst er að Pavel nær ekki sjöunda titlinum í röð en hann var sá eini sem vann alla sex titlana með KR frá 2014 - 2019. Brynjar Þór og Darri Hilmarsson unnu fimm ár í röð sem og Finnur Freyr Stefánsson þjálfari en voru allir farnir tímabilið 2018-2019.  

Matthías Orri Sigurðarson var dýrmætur fyrir KR í kvöld. Hann býr að þeirri reynslu að hafa verið lykilmaður hjá ÍR í úrslitakeppni og er tilbúinn í slaginn. Matthías, Þórir, Sabin og Nazione ættu að hafa meiri kraft í þessu leikjaálagi heldur en þeir sem eldri eru og verða bara mikilvægari eftir því sem á líður. 

Gangur leiksins: 3:7, 7:9, 14:14, 17:21, 17:30, 22:32, 33:43, 41:50, 46:50, 52:55, 62:61, 63:63, 69:69, 74:69, 77:77, 86:89.

Valur: Jordan Jamal Roland 19, Kristófer Acox 17/14 fráköst, Sinisa Bilic 14, Hjálmar Stefánsson 13/9 fráköst, Miguel Cardoso 11/6 fráköst/7 stoðsendingar, Jón Arnór Stefánsson 9, Pavel Ermolinskij 3/7 fráköst/6 stoðsendingar.

Fráköst: 32 í vörn, 11 í sókn.

KR: Tyler Sabin 26/5 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 15/5 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 14/7 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 11, Brandon Joseph Nazione 8/6 fráköst/3 varin skot, Zarko Jukic 7/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 5, Helgi Már Magnússon 3.

Fráköst: 26 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Ísak Ernir Kristinsson.

Áhorfendur: 600

Stuðningsmenn KR lifðu sig vel inn í leikina gegn Val.
Stuðningsmenn KR lifðu sig vel inn í leikina gegn Val. mbl.is/Arnþór Birkisson
Valur 86:89 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka