Ekki tilbúnir í sumarfrí

Kyrie Irving reynir að stöðva Jayson Tatum í nótt.
Kyrie Irving reynir að stöðva Jayson Tatum í nótt. AFP

Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt. Þar unnu Boston Celtics og Los Angeles Clippers sigra í einvígjum sínum eftir að hafa tapa fyrstu tveimur. Þá er Atlanta Hawks komið í 2:1 forystu gegn New York Knicks.

Boston vann 125:119 heimasigur gegn Brooklyn til að halda sér á floti í einvíginu, staðan í einvíginu er 2:1 fyrir Brooklyn en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram. Jayson Tatum átti þvílíkan stórleik fyrir heimamenn, skoraði 50 stig en James Harden var sömuleiðis drjúgur fyrir gestina, skoraði 41 stig og gaf tíu stoðsendingar.

Atlanta komst yfir í einvígi sínu gegn New York með 105:94 sigri þökk sé sterkum öðrum leikhluta þar sem heimamenn skoruðu 29 stig gegn 13 frá gestunum. Trae Young var stigahæstur Atlanta með 21 stig ásamt því að gefa 14 stoðsendingar. Derrick Rose var atkvæðamikill í liði New York, skoraði 30 stig.

Þá dugði stórleikur Luka Doncic liði Dallas ekki til að komast í 3:0 í einvígi sínu gegn Los Angeles. Slóveninn skoraði 44 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar en LA Clippers vann 118:108 sigur. Kawhi Leonard var bestur í liðinu með 36 stig og átta fráköst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka