Matthías Orri Sigurðarson bakvörður KR átti virkilega góðan leik í kvöld þegar KR vann oddaleikinn gegn Val á Hlíðarenda 89:86 og tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik.
Leikurinn í kvöld var spennandi eins og flestir leikjanna fimm í rimmu liðanna. Hvað fannst Matthíasi ráða úrslitum í kvöld?
„Tvö stór skot frá Ty [Sabin]. Svo fannst mér við ná að stoppa þá ágætlega þegar við hertum aðeins vörnina. Það var stórt. Við fráköstuðum að ég held nokkuð vel í kvöld og það skiptir líka máli. Við gátum þá keyrt á þá eftir varnarfráköst. En á heildina litið var auðvitað voðalega lítill munur á liðunum í kvöld og þetta gat farið á hvorn veginn,“ sagði Matthías sem skoraði 14 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.
KR náði þrettán stiga forskoti í öðrum leikhluta og var yfir 50:41 að loknum fyrri hálfleik. Valur náði að jafna í þriðja í leikhluta og komast yfir í þeim fjórða. „Tilfinningin var góð í fyrri hálfleik en í síðasta leik gerðist það einnig að Valsmenn voru mjög fljótir að koma til baka eftir góða byrjun hjá okkur. Við vorum því ekki orðnir rólegir þótt við höfum unnið tvo fyrstu leikhlutana. Valsmennirnir eru það góðir að þeir þurfa ekki að setja niður nema tvö til þrjú skot og þá eru þeir komnir inn í leikinn. Við spilum vörnina þannig að þeir fá af og til opin skot.“
Þegar 8 sekúndur voru eftir var dæmd sóknarvilla á Valsarann Sinisa Bilic fyrir brot á Zarko Jukic í stöðunni 87:86 fyrir KR. Matthías segist hafa séð atvikið mjög vel. „Ég stóð beint við hliðina á þessu og fagnaði vel. Mér fannst þetta vera augljós villa. Bilic er duglegur að krækja og þetta var augljóst. Sem betur fer því mér fannst dómurinn á undan rangur þegar Jakob fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Þar fannst mér línan allt í einu breytast hjá dómurunum. Ég held að þetta hafi bara átt að fara svona,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson í samtali við mbl.is á Hlíðarenda í kvöld.