Allt annar veruleiki í úrslitakeppninni

Tyler Sabin kominn fram hjá Kristófer Acox og sækir að …
Tyler Sabin kominn fram hjá Kristófer Acox og sækir að körfu Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríski bakvörðurinn Tyler Sabin hefur gert það gott með KR í körfuknattleiknum á keppnistímabilinu. Í leikjunum gegn Val í úrslitakeppninni hefur Sabin undirstrikað að hann er tilbúinn í slaginn þegar mikið er undir.

„Íslenska deildin er skemmtileg og leikirnir í úrslitakeppninni eru spennuþrungnir. Úrslitakeppnin er allt annar veruleiki en deildakeppnin. Fólk hafði reynt að útskýra það fyrir mér og ég sagði bara ókei. En svo kom ég í leikina gegn Val og áttaði mig á að hugarfarið er allt annað. Þetta hefur verið stórskemmtilegt og ég get ekki annað en verið fullur tilhlökkunar varðandi framhaldið,“ sagði Ty Sabin þegar mbl.is ræddi við hann eftir sigurinn gegn Val í oddaleik liðanna á Hliðarenda í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. 

„Allt tímabilið hefur verið þannig að annaðhvort eru áhorfendur ekki leyfðir á leikjunum eða hundrað manns mega sækja leikina. Því fylgir góð tilfinning að aðeins hafi verið létt á samkomutakmörkunum. Hvort sem stuðningsmenn KR eru fáir eða margir þá heyrum við vel í þeim og við hefðum ekki unnið Val án þeirra. Við hlökkum til næstu rimmu.“

Ty Sabin nýtur mikilla vinsælda hjá hörðustu stuðningsmönnum KR.
Ty Sabin nýtur mikilla vinsælda hjá hörðustu stuðningsmönnum KR. mbl.is/Arnþór Birkisson



Ekki vantar sjálftraustið hjá Sabin sem er mikil skytta og hefur þá eiginleika að koma sér sjálfur í skotfæri nánast upp úr engu. Hann skoraði margar mjög mikilvægar körfur í spennuleikjunum gegn Val og virðist vilja vera með boltann þegar mikið liggur við.

„Já ég held að það sé vegna þeirrar vinnu sem ég legg á mig á hverjum degi. Auk þess treysta liðsfélagarnir mér á mikilvægum augnablikum í leikjum. Við vitum hverjir vilja fá boltann og hvað á að gera við hann. Það hefur gengið upp en sjálfstraustið hjá mér verður til vegna þeirrar vinnu sem ég hef lagt á mig,“ sagði Sabin þegar blaðamaður færði þetta í tal við hann.

Tyler Sabin með boltann en Valsarinn Hjálmar Stefánsson er við …
Tyler Sabin með boltann en Valsarinn Hjálmar Stefánsson er við öllu búinn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sabin sagði að ekki hefði mátt á milli sjá í leikjum Vals og KR enda þurfti fimm leiki til að ná fram úrslitum. Hann hafði greinilega gaman af því að spila þessa leiki.

„Já þessi rimma var eins og stríð. Í hverjum einasta leik réðust úrslitin á nokkrum atriðum. Allt snerist um að framkvæma smáatriðin rétt. Þetta var stríð. Bæði lið náðu að gefa allt í þetta en heppnin var með okkur í oddaleiknum,“ sagði Ty Sabin í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka