Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var að vonum svekktur eftir að Haukar töpuðu naumlega gegn Val, 71:65, í öðrum leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik.
„Ég er bara drullusvekktur. Mér fannst við henda þessu frá okkur á seinustu þremur mínútunum og það á atriðum sem við erum búin að framkvæma vel allan leikinn,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is en Haukar voru öflugir lengst af og með forystu þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka.
„Þetta eru úrslit, þú þarft að spila vel í 40 mínútur til að eiga sigurinn skilið. Ég er ánægður með liðið en það er svekkjandi að halda ekki fókus þessar síðustu mínútur.“
Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari og geta Valsarar því afgreitt einvígið er liðin mætast aftur á miðvikudaginn á Hlíðarenda. „Við þurfum að vinna næsta leik og það er bara gamla góða klisjan, spila vel í 40 mínútur.
Við mættum ekki til leiks í fyrsta leikhluta í fyrsta leik en spilum svo með hjartanu. Núna erum við góðar í 37 mínútur og þurfum að gera enn betur næst. Ég veit að við vinnum næsta leik, það er bara klárt.“