Hitinn mun bara aukast

Hlynur Bæringsson
Hlynur Bæringsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kom í restina þegar við komum þessu upp í tíu stig,“ sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 99:90-sigur á Þór frá Þorlákshöfn í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. 

„Ég er sáttur að vinna á móti ógeðslega góðu liði. Þeir tóku mikið af sóknarfráköstum. Þeir eru með mjög gott lið sem er vel sett saman. Það er mikið af tveggja metra strákum hjá þeim sem eru hraustir og geta bæði skotið og frákastað. Ég er ánægður með að vinna fyrsta leik.“

Nokkur hiti var í leiknum og skoðuðu dómararnir nokkrum sinnum myndbönd áður en teknar voru ákvarðanir. „Þetta var ekki of mikið enda aldrei neitt stórkostlegt að gerast. Hitinn mun bara aukast. Það er gaman þegar það eru læti á pöllunum. Maður lifnar við þegar maður heyrir það,“ sagði Hlynur sem er spenntur fyrir komandi leikjum í einvíginu. 

„Ég lít á þetta einvígi sem mjög skemmtilegt og spennandi. Það er mjög gaman að spila við Þórsarana. Það er vel sett saman og ótrúlega vel þjálfað. Þetta er fyrst og fremst gaman,“ sagði Hlynur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka