Körfuknattleiksmaðurinn reyndi Sigurður Gunnar Þorsteinsson er genginn til liðs við Tindastól á Sauðárkróki og hefur samið við Skagfirðinga um að leika með þeim á næsta keppnistímabili. Feykir greinir frá þessu í dag.
Sigurður lék með Hetti í úrvalsdeildinni í vetur en austanliðið féll naumlega úr deildinni eftir tvísýna fallbaráttu í lokaumferðunum.
Sigurður er 32 ára gamall Ísfirðingur, 2,04 m á hæð og leikur jafnan sem miðherji. Í vetur skoraði hann 12,6 stig og tók 8 fráköst að meðaltali í leik með Hetti.
Hann lék með KFÍ til að byrja með en síðan með Keflavík og Grindavík í samtals átta ár. Þá lék hann erlendis með Solna Vikings í Svíþjóð og með grísku liðunum Doxas og Larissa. Sigurður sneri aftur til Grindavíkur 2017, var síðan í röðum ÍR í tvö ár áður en hann fór til Hattar. Hann á 58 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.