Smitandi að hitta illa

Lárus Jónsson ræðir við sína menn.
Lárus Jónsson ræðir við sína menn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, var skiljanlega svekktur er hann ræddi við mbl.is eftir 90:99-tap sinna manna gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Stjarnan komst með sigrinum í 1:0 í einvíginu en þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu. 

„Þetta var nokkuð harður leikur, sem er einkennandi fyrir undanúrslit í úrslitakeppninni. Stjarnan stjórnaði þessu meira og var með þennan leik þrátt fyrir að við höfum ekki spilað illa. Mér fannst við aldrei ná að opna leikinn þar sem við einfaldlega hittum ekki nægilega vel.

Þeir voru að skora frekar auðveldari körfur og ég held þeim hafi liðið frekar vel, þrátt fyrir að við höfum stundum verið með forystuna. Þeir voru að tapa fleiri boltum en munurinn liggur í skotunum. Mér fannst við vera að fá galopin skot sem fóru ekki niður,“ sagði Lárus við mbl.is. 

Stjarnan skoraði tólf fyrstu stig fjórða leikhlutans og lögðu með því grunninn að sigrinum. „Í upphafi fjórða hættum við að hitta og þá þrengist þetta aðeins. Menn fara að hika aðeins að fara á körfuna. Það er smitandi að hitta illa. Ef einn leikmaður hittir illa geta hinir hitt illa. Í kvöld voru fáir að hitta.“

Lárus sagði sjálfur að leikurinn hafi verið harður, en bætti síðan við að hann hafi ekki verið of harður. „Alls ekki en dómararnir fóru svolítið oft í skjáinn. Það eyðileggur aðeins skemmtunina, en það er betra að hafa þetta rétt,“ sagði Lárus. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka