Undanúrslitin hefjast í Þorlákshöfn í kvöld

Hlynur Bæringsson og Larry Thomas fremstir í flokki í leik …
Hlynur Bæringsson og Larry Thomas fremstir í flokki í leik Stjörnunnar og Þórs í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Undanúrslitin á Íslandsmóti karla í körfuknattleik hefjast í Þorlákshöfn í kvöld þegar heimamenn í Þór taka á móti Stjörnunni.

Þetta eru liðin sem enduðu í öðru og þriðja sæti Dominos-deildarinnar í vetur en Þórsarar sigruðu nafna sína frá Akureyri 3:1 í átta liða úrslitunum og Stjarnan lagði Grindavík 3:2 eftir oddaleik í Garðabæ á föstudagskvöldið.

Í vetur höfðu Þórsarar betur í viðureignum liðanna en þeir unnu fyrst 111:100 í Garðabæ í janúar og síðan aftur 92:83 í Þorlákshöfn í apríl. Liðin enduðu að lokum jöfn að stigum, með 28 stig hvort, en Þórsarar voru fyrir ofan á töflunni vegna innbyrðis úrslitanna, og eiga þar með heimaleikjaréttinn ef til oddaleiks kemur í einvígi liðanna.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20.15 en það verður tímasetning allra leikjanna í undanúrslitunum. Einvígi Keflavíkur og KR hefst annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka