Gamla ljósmyndin: Árangur í austurvegi

Reuters

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Jón Arnór Stefánsson tilkynnti fyrir rétt rúmri viku að nú væri rétti tíminn til að láta staðar numið í körfuknattleiknum. 

Jón Arnór braut blað í íþróttasögunni á Íslandi þegar hann varð Evrópumeistari í íþróttinni fyrstur Íslendinga. Hefur enginn leikið það eftir. 

Ólafur, hálfbróðir Jóns, varð einnig Evrópumeistari félagsliða í handknattleik. Því má velta fyrir sér hversu mörg dæmi geti verið um að bræður verði Evrópumeistarar hvor í sinni hópíþróttinni en ekki er heiglum hent að finna svör við því 

Jón var í byrjunarliði Dynamo St. Peters­burg þegar liðið sigraði í Europe League árið 2005 og skoraði 9 stig í úrslitaleiknum gegn BC Kyiv frá Kænugarði í Úkraínu. Í keppninni voru öflug lið eins og Fenerbache sem er stórveldi í körfuboltanum fyrir utan lið frá löndum eins og Frakklandi, Grikklandi, Ísrael, Rússlandi og Þýskalandi svo eitthvað sé nefnt. 

Meðfylgjandi mynd var tekin af ljósmyndara Reuters-fréttaveitunnar eftir úrslitaleikinn og þar má sjá, naumlega þó, Jón Arnór með bikarinn. Hvor sínum megin við hann eru samherjarnir Ognjen Askrabic og Mate Milisa. 

St. Petersburg lagði nokkuð á sig til að fá Jón Arnór til liðs við sig og fékk hann frá Dallas Mavericks sem samdi við Jón árið 2003. Varð Jón annar Íslendingurinn til að fá samning hjá NBA-liði á eftir Pétri Guðmundssyni en spilaði ekki mótsleik með liðinu. 

Ferill Jóns í meistaraflokki stóð í meira en tvo áratugi og hér er einungis stiklað á stóru en Jón varð ítalskur bikarmeistari með Napólí árið 2006 og lék til úrslita um ítalska meistaratitilinn árið 2008 með Roma. Jón fór jafnframt tvívegis í undanúrslit á Spáni með Unicaja Malaga og Valencia 2015 og 2016. Féll þá úr keppni gegn stórveldunum Barcelona og Real Madríd. Í framhaldinu hélt hann heim til Íslands.

Jón lék með KR og Val hér heima, Trier í Þýskalandi, Dynamo Saint Petersburg í Rússlandi, Napolí, Roma og Benetton Treviso á Ítalíu, Valencia, Granada, Zaragoza og Unicaja Malaga á Spáni. 

Jón Arnór lék ekki mörg tímabil hér heima án þess að verða Íslandsmeistari. Varð hann fimm sinnum Íslandsmeistari með KR: 2000, 2009, 2017, 2108 og 2019. Auk þess bikarmeistari 2017. Var hann valinn besti leikmaður Íslandsmótsins 2002, 2009 og 2017 en einnig besti maður úrslitakeppninnar 2009 og 2017. 

Hann lék 100 A-lands­leiki og átti stóran þátt í því að Ísland komst í fyrsta skipti í lokakeppni EM, Euroba­sket, árin 2015 og 2017.

Jón Arnór hlaut sæmdarheitið íþróttamaður árs­ins árið 2014 hjá Sam­tök­um íþróttaf­rétta­manna og var valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert