„Ég var algjör körfuboltalúði,“ sagði Sylvía Rún Hálfdánardóttir, fyrrverandi landsliðskona í körfuknattleik, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Sylvía Rún hefur æft körfubolta frá því hún man eftir sér og var á meðal efnilegustu leikmanna landsins lengi vel en á tíma æfði hún og spilaði með fjórum flokkum á sama tíma.
Þrettán ára gömul byrjaði hún að æfa með meistaraflokki en hún lagði skóna óvænt á hilluna á síðasta ári, þá 21 árs gömul, eftir langvarandi veikindi.
„Í eitt skiptið þá langaði mig mikið að fara á skólaball í grunnskóla,“ sagði Sylvía.
„Ég var nýbúin að keppa og hljóp með blautt hár í íþróttagallanum á ballið bara til þess að vera aðeins með. Ég sleppti afmælum, böllum og gerði í raun ekkert annað en að vera í körfubolta.
Það er erfitt að segja svona eftir á hvað hefði mátt gera öðruvísi varðandi minn feril en ég hefði viljað fá að vera barn aðeins lengur,“ sagði Sylvía.
Viðtalið við Sylvíu Rún í heild sinni má nálgast með því að smella hér.