Fyrsti Íslandsmeistaratitill Þórsara

Þór frá Þorlákshöfn tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni með 81:66-heimasigri á Keflavík í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar unnu einvígið 3:1.

Keflavík fór mjög vel af stað og náði mest 13 stiga forskoti í fyrsta leikhlutanum. Dominykas Milka var að spila sérstaklega vel á meðan Adomas Drungilas náði sér ekki á strik hinum megin. Þórsarar náðu þó að minnka muninn og var staðan eftir fyrsta leikhlutann 25:19.

Þór var mun betri aðilinn í öðrum leikhluta og með góðum leik tókst heimamönnum að komast yfir. Davíð Arnar Ágústsson raðaði inn þriggja stiga körfum og Drungilas fór að skora meira. Þegar fyrri hálfleikur var allur voru Þórsarar komnir yfir og var staðan í hálfleik 43:40.

Keflavík komst yfir snemma í þriðja leikhlutanum en eftir því sem leið á leikhlutann náði Þórsarar völdunum og með þriggja stiga körfu frá Emil Karel Einarssyni í blálokin komst Þór sex stigum yfir í lok leikhlutans og var staðan fyrir fjórða leikhluta 58:52, Þór í vil.

Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann mun betur og voru snöggir að jafna í 58:58. Þá tók Adomas Drungilas til sinna ráða og skoraði þrjár þriggja stiga körfur með stuttu millibili og kom Þór í 67:60 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Keflvíkingar voru ekki líklegir til að jafna eftir það og Þórsarar fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Adomas Drungilas skoraði 24 stig fyrir Þórsara á meðan 32 stig frá Domynikas Milka dugðu ekki til. 

Gangur leiksins: 2:6, 7:10, 12:22, 19:25, 24:27, 33:33, 37:35, 43:40, 48:42, 50:49, 53:52, 58:52, 61:58, 68:62, 71:64, 81:66.

Þór Þorlákshöfn: Adomas Drungilas 24/11 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 17/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 15, Larry Thomas 11/12 fráköst/11 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 5, Halldór Garðar Hermannsson 4, Emil Karel Einarsson 3/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2.

Fráköst: 28 í vörn, 9 í sókn.

Keflavík: Dominykas Milka 32/12 fráköst, Deane Williams 15/13 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 9/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Calvin Burks Jr. 6, Reggie Dupree 3, Valur Orri Valsson 1.

Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 800

Þór Þ. 81:66 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert