Sama hvað einhverjir karlar í jakkafötum segja

Davíð Arnar Ágústsson var manna glaðastur eftir sigur Þórs í …
Davíð Arnar Ágústsson var manna glaðastur eftir sigur Þórs í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
Davíð Arnar Ágústsson átti stórgóðan leik fyrir Þór frá Þorlákshöfn er liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta með sigri á Keflavík í fjórða leik liðanna í úrslitum í kvöld. 

„Þetta er svo villt saga og súrrealískt. Þetta er geggjað,“ sagði Davíð í sigurvímu við mbl.is eftir leik. Hann viðurkennir að lokakaflinn hafi verið lengi að líða. „Það var langt. Ég var alltaf að líta á klukkuna til að sjá hvenær ég gæti hlaupið upp í stúku. Síðustu tvær mínútur liðu eins og heil eilífð.“

Davíð segir sigurinn verðskuldaðan þar sem Þórsarar hafi einfaldlega verið besta liðið á tímabilinu. 

„Við vorum bestir á tímabilinu og þegar við erum bestir þá vinnum við, sama hvað einhverjir karlar í jakkafötum segja. Þeir spila ekki leikina. Við vorum bestir á tímabilinu og þess vegna erum við Íslandsmeistarar. Við hittumst oftast í körfuna og stoppuðum hina við að hitta í körfuna. Þetta er ekki flókið, þú verður bara að hitta helvítis boltanum ofan í körfuna.“

Davíð skoraði 15 stig í kvöld, öll úr þriggja stiga skotum og lék stórt hlutverk í sigrinum. „Mér leið mjög vel og var að vonast til að fá boltann meira í lokin,“ sagði Davíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert