Körfuknattleiksmaðurinn Sigtryggur Arnar Björnsson er genginn til liðs við Tindastól í Skagafirði á nýjan leik. Það var Feykir.is sem greindi fyrst frá þessu.
Sigtryggur, sem er 28 ára gamall, þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa leikið með Tindastóli tímabilið 2012-13 og tímabilið 2017-18.
Hann lék síðast með Coruna í spænsku B-deildinni en hann hefur einnig leikið með Breiðabliki, Skallagrím og Grindavík hér á landi.
„Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls lýsir yfir mikilli ánægju með að hafa náð að semja við Sigtrygg Arnar Björnsson um að leika með liðinu næsta tímabil 2021-2022,“ segir í tilkynningu Tindastóls.
„Sigtryggur Arnar verður mikill styrkur fyrir félagið og sérstaklega fyrir íslenskan kjarna liðsins,“ segir enn fremur í tilkynningunni.