Sætara gegn gamla liðinu

Callum Lawson kampakátur að fagna Íslandsmeistaratitlinum með Ragnari Erni Bragasyni.
Callum Lawson kampakátur að fagna Íslandsmeistaratitlinum með Ragnari Erni Bragasyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilfinningin er æðisleg,“ sagði enski körfuknattleiksmaðurinn Callum Lawson kampakátur við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans í Þór frá Þorlákshöfn urðu Íslandsmeistarar í körfubolta í fyrsta skipti í sögunni á föstudaginn var.

„Það er æðislegt að vera verðlaunaður eftir svona langt og erfitt tímabil. Þetta var sannur liðssigur,“ bætti Lawson við, en tímabilið var sérstaklega langt í vetur þar sem það var stöðvað oftar en einu sinni vegna kórónuveirunnar.

Titillinn er sá fyrsti í sögu Þórs frá Þorlákshöfn og gleði bæjarbúa, leikmanna og þjálfara leyndi sér ekki.

„Markmiðið okkar frá byrjun var að vinna þetta allt saman og við lögðum mikið á okkur en það er algjörlega þess virði þegar maður sér öll þessi glöðu andlit. Allir eru þakklátir og stuðningurinn hefur verið magnaður í allan vetur.“

Lawson spilaði í stutta stund með Keflavík, en var látinn fara eftir síðasta tímabil. Hann viðurkennir að sigurinn hafi verið sérstaklega sætur fyrir vikið.

„Ég ber mikla virðingu fyrir félaginu og öllum í Keflavík en auðvitað er þetta aðeins sætara gegn gamla liðinu. Við unnum mjög góð lið í úrslitakeppninni og það sýnir hve góðir við vorum,“ sagði Lawson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert