Helena Sverrisdóttir var valin í lið tímabilsins í úrvalsdeildinni í körfubolta á lokahófi KKÍ á Grand hótel í dag. Hún lék stórt hlutverk er Valur varði Íslandsmeistaratitil sinn eftir sigur á Haukum í úrslitum.
„Þetta var extra langt tímabil og þess vegna ótrúlega gaman að klára þetta á sigri. Það voru allir mjög tilbúnir að komast í sumarfrí, að slaka aðeins á og hlaða batteríin, því það er stutt í að þetta byrji aftur.
Ég tók mér góða pásu og svo er ég búin að vera að lyfta. Maður nennir ekki í körfubolta alveg strax, en maður þarf að hugsa um líkamann. Ég á svo tvö börn sem þarf að sinna. Ég er með þær allan daginn í sundi og svona,“ sagði Helena við mbl.is eftir að hún tók við viðurkenningunni.
Eftir tímabilið samdi Helena við uppeldisfélag sitt, Hauka. Hún er spennt fyrir að spila aftur fyrir uppeldisfélagið þótt ákvörðunin hafi verið erfið.
„Það var alltaf í myndinni að ég myndi fara þangað og ég vissi að ég myndi enda ferilinn þar. Það var ógeðslega erfitt að kveðja lið sem þú varst að verða meistari með, þar sem var frábær umgjörð, frábærar stelpur og frábær þjálfari. Ég bý hins vegar tvær mínútur frá Ásvöllum og er með stórt Haukahjarta. Mér fannst þetta vera rétta skrefið fyrir mig og mína fjölskyldu núna.“
„Það er ekkert illt í þessu. Valur vildi halda mér og ég tók mér langan tíma í að taka ákvörðun og ég held ég hafi aldrei tekið eins erfiða ákvörðun, en ég er mjög ánægð með þessa lendingu. Það er ekki víst hvernig leikmannahópurinn verður, en það er flott þjálfarateymi þarna og umgjörð. Ég þjálfa svo sjöunda flokk kvenna líka og þetta verður spennandi vetur,“ sagði Helena.
Hún segist vilja ljúka ferlinum hjá Haukum, en bætir við að það gerist líklegast ekki á næstunni. „Vonandi get ég spilað fimm ár í viðbót, en það fer auðvitað eftir á líkamanum og svona. Við sjáum hvað hann leyfir,“ sagði Helena sem er 33 ára gömul.