Sögulegt tap Bandaríkjamanna

Jayson Tatum (t.h.) í baráttu við Josh Green í leiknum …
Jayson Tatum (t.h.) í baráttu við Josh Green í leiknum í nótt. AFP

Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði öðrum vináttulandsleik sínum í röð er það laut í lægra haldi, 83:91, gegn Ástralíu í Las Vegas í nótt.

Bandaríska landsliðið, yfirfullt af stórstjörnum úr NBA-deildinni, er þar með búið að tapa tveimur leikjum í röð í fyrsta og eina skiptið frá árinu 1992 þegar opnað var fyrir þann möguleika að velja stjörnurnar úr NBA.

Fyrir árið 1992 stóð bandaríska landsliðinu ekki til boða að velja atvinnumenn í körfuknattleik.

Aðfaranótt sunnudags tapaði liðið einnig gegn Nígeríu og því ljóst að undirbúningur Bandaríkjamanna fyrir Ólympíuleikana í Tókýó sem hefjast innan tveggja vikna hefur ekki farið af stað sem skyldi.

Patty Mills var stigahæstur Ástrala í nótt með 22 stig. Damian Lillard skoraði einnig 22 stig fyrir Bandaríkin og var stigahæstur í þeirra liði.

Ástralar náðu að halda Bandaríkjamönnum í skefjum og raunar svo vel að þeir náðu ekki að skora körfu utan af velli síðustu fjórar mínúturnar og 34 sekúndur.

Baulað var á bandaríska liðið, sem lék á heimavelli, í leikslok og telst það til tíðinda enda sigurganga þjóðarinnar búin að vera næsta óslitin í áratugi.

Bandaríkin eiga þrjá vináttulandsleiki eftir í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana og mæta Argentínu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert