Körfuknattleiksmaðurinn Dagur Kár Jónsson hefur samið við spænska félagið Club Ourense Baloncesto og mun leika með því á komandi tímabili.
Dagur Kár er 26 ára gamall skotbakvörður sem er uppalinn hjá Stjörnunni en hefur leikið með Grindavík frá árinu 2016, að undanskildu tímabilinu 2018/2019 þegar hann lék með Flyers Wels í austurrísku 1. deildinni.
Ourense leikur í þriðju efstu deild í spænska körfuboltanum og kveðst Dagur Kár ekki hafa getað sleppt þessu tækifæri.
„Þetta er virkilega spennandi tækifæri sem ég get ekki sleppt á þessum tímapunkti á ferli mínum.
Ég vil þakka Grindvíkingum fyrir síðustu ár þar sem mér hefur liðið eins og heimamanni.
Ég vil einnig þakka stjórninni og Daníel þjálfara fyrir að styðja við bakið á mér í þessari ákvörðun, enda ekki við öðru að búast af þessu toppfólki. Takk fyrir mig,“ sagði hann í viðtali sem var birt á samfélagsmiðlum Grindavíkur.
Í tilkynningu körfuknattleiksdeildar Grindavíkur segir: „Þetta er mikil blóðtaka fyrir lið Grindavíkur en Dagur Kár hefur verið lykilleikmaður Grindavíkur á undanförnum árum. Leit að arftaka Dags er í fullum gangi og vonumst við til að geta kynnt nýja leikmenn [sem ganga] til liðs við félagið á allra næstu dögum.
KKD. Grindavíkur vill koma á framfæri þökkum til Dags Kár fyrir hans framlag til körfuboltans í Grindavík og óskum við honum alls hins besta á Spáni. Hann er jafnframt ævinlega velkominn aftur „heim“ í Grindavík!“