Nýliðar Njarðvíkinga komu verulega á óvart í kvöld og sigruðu Hauka, sigurstranglegasta lið úrvalsdeildar kvenna í körfubolta, Subway-deildarinnar, á Ásvöllum í síðasta leiknum í fyrstu umferð deildarinnar, 66:58.
Mjög lítið var skorað í fyrri hálfleiknum og Haukum tókst ekki að skora nema sjö stig á fyrstu níu mínútum leiksins. Njarðvík var yfir eftir fyrsta leikhluta, 18:12, og síðan 29:21 í hálfleik.
Haukar jöfnuðu með því að skora fyrstu átta stigin í þriðja leikhluta, 29:29, en Njarðvíkingar sigldu framúr á ný og staðan var 43:42 þeim í hag þegar leikhlutanum lauk.
Staðan var 49:49 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Þá tóku Njarðvíkingar enn til hendinni og skoruðu ellefu stig í röð, breyttu stöðunni í 60:49, og úrslitin virtust ráðin.
Haukar, sem léku án Helenu Sverrisdóttur, gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í fjögur stig, 62:58. Njarðvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og innbyrtu
Aliyah A'taeya Collier skoraði 25 stig fyrir Njarðvík og tók 14 fráköst. Diane Diene skoraði 16 stig og Lavina Joao Gomes skoraði 13 stig.
Hjá Haukum var Bríet Sif Hinriksdóttir með 13 stig, Haiden Palmer 11 og Sólrún Inga Gísladóttir 11.