Keflavík vann 78:44-stórsigur á Valskonum í Origo-höllinni á Hlíðarenda þar sem liðin mættust í 32-liða úrslitum VÍS-bikarsins í körfuknattleik. Njarðvík vann sömuleiðis 87:46-sigur gegn Vestra í dag.
Daniela Wallen skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld og var meðal bestu leikmanna vallarins í nokkuð óvæntum stórsigri. Fyrir Val skoraði Ameryst Alston 22 stig sem dugðu þó skammt. Valsarar skoruðu aðeins fimm stig í þriðja leikhluta gegn 22 stigum gestanna.
Þá skoraði Eva María Lúðvíksdóttir 19 stig og tók fimm fráköst er Njarðvík vann sannfærandi sigur á Vestra, botnliði fyrstu deildarinnar. Keflavík mætir Fjölni í 16-liða úrslitum en Njarðvík heimsækir Skallagrím.