Valur og Tindastóll eru komin áfram í 16-liða úrslit í VÍS-bikar karla í körfuknattleik eftir sigra í leikjum sínum í kvöld. Valsarar unnu 95:69-sigur gegn Ármanni í Kennaraháskólanum og Tindastóll vann 112:61-stórsigur gegn Skallagrími í Borgarnesi.
Valsarar lentu ekki í vandræðum með lið Ármanns sem spilar í 2. deildinni. Staðan var 34:19 eftir fyrsta leikhluta og 60:32 í hálfleik, Völsurum í vil. Kristófer Acox, Pablo Cesar Bertone og Callum Lawson skoruðu allir 16 stig fyrir Val en Gunnar Ingi Harðarson var stigahæstur Ármanns með 15 stig. Valsarar eru þar með komnir áfram í 16-liða úrslit og mæta næst Breiðabliki.
Tindastóll mun aftur á móti mæta Stjörnunni í næstu umferð eftir sigurinn gegn fyrstudeildarliði Skallagríms í kvöld. Taiwo Hassan Badmus var stigahæstur gestanna með 22 stig en Javon Anthony Bess var næstur með 18 stig. Hjá Skallagrími var Arnar Smári Bjarnason með 15 stig.